Fótbolti

Pirraðir stuðnings­menn Eng­lands köstuðu glösum í Southgate

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Southgate hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna daga.
Gareth Southgate hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna daga. getty/Ryan Pierse

Stuðningsmenn enska fótboltalandsliðsins létu óánægju sína í ljós eftir markalausa jafnteflið við Slóveníu á Evrópumótinu í Þýskalandi í gær.

Þrátt fyrir að ná ekki að skora gegn Slóvenum dugði jafnteflið Englendingum til að vinna C-riðilinn.

Stuðningsmenn enska liðsins voru þó langt frá því að vera sáttir og púuðu á sína menn eftir leikinn í Köln í gær.

Ekki nóg með það heldur var tómum glösum kastað í landsliðsþjálfarann Gareth Southgate þegar hann fór og þakkaði fyrir stuðninginn í leikslok.

„Ég skil umræðuna gagnvart mér og það er betra fyrir liðið að hún beinist að mér en því,“ sagði Southgate eftir leikinn.

„En þetta skapar óvenjulegt andrúmsloft að starfa í. Ég hef ekki séð neitt annað lið komast áfram og fá svipaða meðferð. Ég skil það og ætla ekki að bakka frá því en ég er mjög stoltur af leikmönnunum fyrir það hvernig þeir hafa staðið sig í þessum aðstæðum.“

Næsti leikur Englands er í Gelsenkirchen 30. júní. Andstæðingurinn verður annað hvort liðið sem endar í 3. sæti D- eða E-riðils.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×