Erlent

Stað­festa skipun Ruttes

Árni Sæberg skrifar
Mark Rutte, til vinstri, og Jens Stoltenberg.
Mark Rutte, til vinstri, og Jens Stoltenberg. NATO

Framkvæmdastjórn Atlantshafsbandalagsins, NATO, hefur staðfest skipun Marks Rutte, forsætisráðherra Hollands, í stöðu framkvæmdastjóra NATO.

Fyrir helgi lá ljóst fyrir að Rutte yrði næsti framkvæmdastjóri NATO eftir að eini keppinautur hans um stöðuna, Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, dró framboð sitt til baka.

Rutte tekur við störfum þann 1. október þegar skipunartími Jens Stoltenberg, sitjandi framkvæmdastjóra og fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, rennur út. Hann mun þá hafa sinnt stöðunni í áratug.

Rutte hefur gegnt stöðu forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010, lengst allra í sögu landsins. Síðan í júlí í fyrra hefur hann setið til bráðabirgða eftir að ríkisstjórn hans sprakk vegna ágreinings um innflytjendamál. 

Erfiðlega hefur gengið að smíða nýja ríkisstjórn í Hollandi, ekki síst vegna kosningasigurs pópúlistaflokksins Frelsisflokksins, sem leiddur er af hinum umdeilda Geert Wilders.

Rutte hefur lengi verið kallaður „Teflon-Mark“ í hollenskum stjórnmálum enda hefur hann staðið af sér röð skandala og ósigra í kosningum. Til að mynda neyddist hann til að biðjast lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína árið 2021 eftir barnabótahneykslið svokallaða en endurnýjaði umboð sitt í kosningum skömmu seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×