Lífið

Ís­lendingur á­berandi í banda­rískri raunveruleikaseríu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ingi Hilmar og Corona verða í nýrri seríu af bandarísku raunveruleikaþáttunum 90 day fiance.
Ingi Hilmar og Corona verða í nýrri seríu af bandarísku raunveruleikaþáttunum 90 day fiance. Instagram @ingi_hilmar

Ingi Hilmar Thorarensen fór eins langt út fyrir þægindarammann og hann gat hugsað sér þegar hann ákvað að kýla á það að verða hluti af risastórri bandarískri raunveruleikaseríu ásamt kærustu sinni Coronu.

Á þeim tíma höfðu þau þekkst í ár og búið mestan part í sitthvoru lagi en þátturinn sem um ræðir heitir 90 day fiance: The Other Way og fylgist með bandarískum einstaklingum sem verða ástfangnir af útlendingum og flytja til þeirra heimalands. Corona flutti því til Íslands og risastórt bandarískt tökulið fylgdist með daglegu lífi parsins.

Um 3,1 milljónir að horfa

„Corona er frá Bandaríkjunum, býr í Philadelphiu og er mikill aðdáandi þessara þátta. Síðustu áramót kemur hún í heimsókn og þá erum við svona tiltölulega nýbyrjuð að hittast. 

Hún hringir í mig rétt áður en hún kemur hingað og segir: „Ingi, ekki fríka út en ég sendi póst um okkur á 90 day fiance og þau voru að hringja.“ 

Þá hafði hún verið með vinkonum sínum og sent þetta í léttu glensi en þau voru þá akkúrat í framleiðsluferli og hringdu bara daginn eftir, þetta hentaði svona gífurlega vel og þau vildu fá okkur.

Ég sagði fyrst bara ég er bara fínn, ég hef engan áhuga á þessu,“ segir Ingi Hilmar og hlær. 

„Hún þurfti að hafa smá fyrir því að telja mér trú um að þetta yrði stemning. Síðan hugsaði ég bara að ég myndi örugglega sjá eftir því að gera þetta ekki og ákvað að hjóla í þetta. Þetta er auðvitað mjög fyndið og skrýtið tækifæri að fá að taka þátt í bandarísku raunveruleikasjónvarpi.

Félagi minn sem er mikill aðdáandi af þáttunum sagði mér að þetta væri með svipað áhorf og The Bachelor og að það væru svona 3,1 milljónir sem horfa á þetta. 

Þetta eru ekkert það góðir þættir, þetta er ekki beint gott sjónvarp en áfram gakk,“ segir Ingi Hilmar kíminn. Sjálfur segist hann ekki mikill aðdáandi raunveruleikasjónvarps.

„Ég get alveg horft á einn og einn Survivor þar sem það er keppni í gangi. Það er eitthvað svo lítið að gerast í öðru raunveruleikasjónvarpi finnst mér.“

Þurftu lífvörð sem hafði ekkert að gera

Hann segir að tökudagarnir hafi verið ansi langir, oft tólf tíma dagar frá morgni til kvölds.

„Þetta var líka alvöru framleiðsla og ég var engan veginn að búast við því. Fullt af tökuliði og svo vildu þau líka vera með lífvörð. Ég sagði bara að ef einhver ætlaði að ræna mér þá væri það örugglega einhver frændi í gríni, þau voru ekki alveg að skilja að það þekkjast allir hér. 

Þannig að það var einhver Íslendingur sem er reyndur MMA kappi sem fékk það hlutverk að vera svona öryggis- eða lífvörður og það var auðvitað ekki neitt að gera hjá honum,“ segir Ingi Hilmar og skellir upp úr.

Stöðugt að reyna að fá persónuleg viðbrögð

„Allt við þetta er ógeðslega fyndið og ég verandi mikill kvikmyndalúði fannst þetta alveg extra fyndið. Það þurfti svo oft að láta mig taka upp senur aftur því ég var kannski glottandi beint í linsuna eða að gera eitthvað sem mátti alls ekki. Ég hafði líka bara aldrei séð þáttinn áður og vissi auðvitað ekkert um hvað þetta snerist.

Fyrsti tökudagurinn setti svolítið tóninn. Þá byrjuðum við á að taka upp svona intro fyrir mig á Skólavörðustíg. Ég var búinn að segja þeim að ég spilaði stundum Dungeons and Dragons með vinum mínum. Þeir vildu endilega ná því í tökurnar þannig að ég var búinn að spyrja strákana og þeir búnir að segja já. 

Þá hélt ég að þetta yrði kannski einn tökumaður með mér en ekki fimmtán manna tökulið. Það var auðvitað mjög fyndið að mæta með það lið á spilakvöldið og ég hélt kannski að þau ætluðu að ná nokkrum skotum af okkur að kasta teningum. Nei, nei, þá byrja þau auðvitað bara að spyrja ógeðslega persónulegra spurninga. 

Til dæmis er strákur þarna sem ég þekki aðallega bara í gegnum það að spila saman. Þau fara að spyrja hann bara hvað finnst þér um að Ingi sé farinn að hitta Coronu? Nú er hún svört, hvað heldurðu að foreldrar hans segi við því? Hann sagði bara uuu Ingi er fínn gaur,“ segir Ingi Hilmar hlæjandi og bætir við að fjölskyldan hans hafi auðvitað ekki haft neinar skoðanir á húðlit maka hans.

„Það voru allir alltaf að reyna að fá eitthvað út úr mér og fólkinu í kringum mig. Ég held að það sé eiginlega bara í íslensku DNA-i að deila ekki miklu nema með sínum nánustu. Mér er líka extra mikið sama um einhverjar steríótýpur og er minnst að gagnrýna fólk. 

Þau voru svo oft að reyna að ná mér og spurðu til dæmis: Nú klæðir Corona sig svolítið furðulega, hvað finnst þér um það? Ég sagði bara mér er slétt, ef hún er ánægð þá er ég ánægður. Sem var kannski ekki svarið sem þau vildu fá.“

Þurfti að grafa djúpt í gömul Improv ráð

Ingi Hilmar þurfti þó stundum að láta aðeins reyna á leiklistarhæfileika sína.

„Ég þurfti auðvitað að gefa þeim eitthvað og við Corona vorum saman í liði. Ég þurfti á tímum að grafa djúpt inn í gamlan Improv tíma sem ég fór í til þess að reyna að ýkja einhverja tilfinningu, segir Ingi Hilmar skellihlæjandi.

En þetta var algjört ævintýri og alveg ótrúlega gaman. Auðvitað voru þetta langir dagar og mis gaman en mest stendur upp úr að þetta hafi verið skemmtilegt.“

Ingi Hilmar og Corona kynntust þar síðustu áramót á Kaffibarnum.

„Ég var svo með eftirpartý og býð henni og við náum mjög vel saman. Við förum svo á tvöfalt stefnumót með vinkonu hennar og stelpu sem hún var að hitta og eftir að hún fer aftur út erum við stöðugt að spjalla á Instagram. 

Hún biður mig svo að hittast í Dublin síðasta haust sem ég gerði og eftir það kemur hún í heimsókn til Íslands í desember.“

Sambandið gekk ekki upp

Þrátt fyrir að hafa ekki þekkst lengi náðu Ingi og Corona að eyða tveimur mánuðum saman hér á Íslandi áður en tökuliðið kom. Sambandið gekk þó svo ekki upp. 

„Tökurnar tóku alveg sinn toll en við vorum samt góð eftir þetta. Síðan erum við reyndar hætt saman í dag. Þetta gekk bara ekki upp, hún býr í Bandaríkjunum og er í rosa flottum Ivy League háskóla þar í ljósmæðranámi. 

Auðvitað eru öll sambandsslit erfið og leiðinleg en það er kominn smá tími og þetta var rétt ákvörðun.“

Þátturinn verður frumsýndur í Bandaríkjunum 1. júlí og segist Ingi Hilmar ekki hafa miklar áhyggjur af þessu.

„Ég held að ég hafi lítið að skammast mín fyrir. Þetta er auðvitað alltaf að fara að vera mjög eftirminnileg lífsreynsla. 

 Mér finnst bara geggjað að hafa tekið þátt í þessu og það var ógeðslega gaman að taka þátt. Ég er spenntur að sjá þetta. Ég hefði alltaf séð eftir því ef ég hefði ekki kýlt á þetta. 

Þetta er eins langt út fyrir þægindarammann og hægt er hjá mér en það er líka það sem er skemmtilegt við lífið, maður verður aðeins að geta hent sér út í djúpu laugina.“

Stefnir á að bjóða í sýningarpartý

Ingi Hilmar segist sömuleiðis spenntur að sjá hvernig framleiðslan hefur klippt þetta til.

„Í eina skiptið sem ég hef áður verið í sjónvarpi var þegar að ég og vinur minn komum heim frá Austurríki með Covid. Við höfðum verið bara í besta fríi ævi minnar og vorum góðir á því en þetta var samt klippt til eins og við værum ótrúlega dramatískir. Þannig að það er greinilega hægt að klippa allt til,“ segir Ingi Hilmar hlæjandi.

Og aðspurður hvernig hann ætli svo að horfa á þetta segir hann:

„Það er einmitt málið. Þegar við vorum ennþá saman hafði ég hugsað mér að leigja sal í Bíó Paradís, bjóða vinum og vandamönnum og hlæja saman að þessu. En svo eru líka 24 þættir í einni seríu þannig að veit ekki hvernig ég á eftir að spila þetta. Ég hugsa samt að ég haldi mig við að leigja sal og bjóða góðu fólki, það er góð dæla í Bíó Paradís og mikil stemning.

Blaðamaður spyr Inga þá hvort hann sjái þetta sem upphaf af glæstum ferli í raunveruleikasjónvarpi.

„Já, ég er einmitt byrjaður að sækja um í Survivor. Ég ætla bara að taka yfir ameríska raunveruleikaþáttamarkaðinn,“ segir hann skellihlæjandi í gríni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×