Fótbolti

Sjáðu mörkin sem tryggðu Tyrki og komu Georgíu á­fram á sínu fyrsta stórmóti

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Georges Mikautadze gulltryggði Georgíu sigur gegn Portúgal af vítapunktinum.
Georges Mikautadze gulltryggði Georgíu sigur gegn Portúgal af vítapunktinum. Marvin Ibo Guengoer - GES Sportfoto/Getty Images

Riðlakeppni Evrópumótsins í fótbolta lauk í kvöld. Liðin í E-riðli skildu jöfn, Georgía vann óvænt gegn Portúgal og Tyrkland fór áfram úr F-riðli eftir uppbótartímamark gegn Tékklandi. 

E-riðill

Rúmenía-Slóvakía 1-1

Slóvakía komst yfir á 25. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf frá Juraj Kucka sem rataði til Ondrej Duda og hann skallaði boltann í markið.

Forystan hélst ekki lengi því rétt rúmum tíu mínútum síðar gaf Slóvakía frá sér vítaspyrnu. Brotið var rétt á mörkum þess að vera víti en línan er hluti af teignum og ákvörðun dómara stóð því eftir myndbandsskoðun.

Razvan Marin steig á punktinn og jafnaði með þrumuskoti í efra vinstra hornið, algjörlega óverjandi vítaspyrna og hálfleikstölur 1-1.

Hinn leikur riðilsins, Belgía-Úkraína, endaði 0-0. Öll liðin enduðu með 4 stig en Úkraína en á heimleið vegna þess að þeir voru með verstu markatölu riðilsins. 

F-riðill

Georgía-Portúgal 2-0

Strax á 2. mínútu missti Portúgal boltann á miðsvæðinu og Khvicha Kvaratskhelia kom Georgíu yfir eftir stungusendingu Georges Mikautadze. „Kvaradona“ opnaði vinkilinn og kláraði færið vel, niður í fjærhornið.

Það gerðist svo á 57. mínútu þegar Portúgalinn Antonio Silva braut af sér í eigin vítateig og gaf Georgíu víti. Georges Mikautadze steig á punktinn og skoraði þrátt fyrir að markmaðurinn hefði farið í rétt horn.

Tyrkland-Tékkland 1-1

Tyrkir tóku forystuna á 51. mínútu eftir að hafa legið í stórsókn. Nokkur skot þurfti til en á endanum var það Hakan Çalhanoğlu sem smellhitti boltann með ristinni og hann söng í netinu.

Tékkland jafnaði fimmtán mínútum síðar. Robin Hranac gaf boltann fyrir, markmaður Tyrkja hoppaði upp og virtist hafa hann en svo var ekki. Tomas Soucek var graðastur í frákastið og kom boltanum yfir línuna. Tyrkir heimtuðu brot fyrir markmanninn en markið fékk að standa eftir myndbandsskoðun.

Tyrkland skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma. Varamaðurinn Cenk Tosun kláraði færi sem Orkan Kökcu lagði upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×