Fótbolti

Segir að skammar­legt að gefa í skyn að Rúmenar og Slóvakar hafi samið um jafn­tefli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúmenar fagna með stuðningsmönnum sínum eftir leikinn gegn Slóvökum.
Rúmenar fagna með stuðningsmönnum sínum eftir leikinn gegn Slóvökum. getty/Sebastian Frej

Þjálfari rúmenska karlalandsliðsins í fótbolta, Edward Iordanescu, segir skammarlegt að gefa það í skyn að Rúmenía og Slóvakía hafi spilað viljandi upp á jafntefli á EM í gær.

Rúmenar og Slóvakar gerðu 1-1 jafntefli í E-riðli Evrópumótsins í gær. Það hentaði báðum liðum vel þar sem þau eru bæði komin áfram í sextán liða úrslit.

Iordanescu gaf ekkert fyrir vangaveltur og ásakanir um að Rúmenía og Slóvakía hafi sæst á jafntefli í leiknum í Frankfurt.

„Mér fannst augljóst að bæði lið gáfu allt í þetta í áttatíu mínútur. Allir gáfu allt sem þeir áttu í leikinn. Að tala fyrir leikinn og reyna að ata liðin, vinnu okkar og sæmd, auri er skammarlegt,“ sagði Ioardanescu eftir leikinn.

„Þeir hefðu átt að bíða og sjá og dæma okkur síðan svo þetta var skammarlegt. Þeir köstuðu þessu rusli í átt að okkur, liðinu, stuðningsmönnunum og öllum. Við sýndum að við höfum karakter. Rúmenar berjast alltaf og ef við vorum að fara að tapa og fara heim hefðum við gert það með höfuðið hátt.“

Iordanescu viðurkenndi þó að síðustu tíu mínútur leiksins hefðu Rúmenar reynt að spila upp á jafntefli, enda hentaði það liðinu vel.

Rúmenía vann E-riðilinn en öll liðin í honum enduðu með fjögur stig. Í sextán liða úrslitunum mæta Rúmenar Hollendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×