Fótbolti

Fjöl­skyldur leik­manna urðu fyrir glösunum sem áttu að fara í Southgate

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungur stuðningsmenn Englands í síðasta leik liðanna á EM í Þýskalandi.
Ungur stuðningsmenn Englands í síðasta leik liðanna á EM í Þýskalandi. Getty/Gokhan Balci

Stuðningsmenn enska landsliðsins voru mjög ósáttir eftir litlausa og bitlausa frammistöðu liðsins á móti Slóveníu í lokaleik liðsins í riðlakeppninni á EM í fótbolta.

Sumir þeirra létu óánægju sína í ljós þegar landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate kom til enska stuðningsfólksins. Hann ætlaði þá að þakka fyrir stuðninginn í þessum umrædda leik.

Stuðningsmennirnri létu sér ekki nægja að baula heldur hentu þeir einnig plastglösum í átt að Southgate. Það sást hins vegar ekki að það voru annars konar fórnarlömb þessara fúlu stuðningsmanna.

Glösin, mörg með fullt af ódrukknum bjór, enduðu fæst á grasinu í kringum Southgate. Mörg þeirra enduðu í staðinn í stúkunni. Þar var fullt af fólki sem átti sér einskis ills von.

Enski landsliðsmaðurinn Ezri Konsa sagði frá því að fjölskyldur ensku landsliðsmannanna hefðu orðið fyrir glösunum sem áttu að fara í Southgate.

Konsa sagði að umræddar fjölskyldur hafi fengið glösin yfir sig úr öllum áttum og þetta var eins og að fara í bjórsturtu.

Konsa sagði að leikmennirnir hefðu þess vegna frétt af þessum mótmælum enska stuðningsfólksins en hann tók það jafnframt fram að málið hafi ekki verið rætt frekar innan hópsins.

Enska liðið vann leikinn og mætir Slóvakíu í sextán liða úrslitunum á sunnudaginn. Liðið hefur mátt þola mikla gagnrýni og andrúmsloftið í kringum liðið þykir frekar súrt. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig framhaldið verður hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×