Fótbolti

Króatar fengu stóra sekt frá UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Modric og félagar í króatíska landsliðinu eru farnir heim af EM.
Luka Modric og félagar í króatíska landsliðinu eru farnir heim af EM. Getty/Alex Pantling

Króatíska knattspyrnusambandið var í dag sektað um 105 þúsund evrur af evrópska knattspyrnusambandinu vegna framkomu stuðningsmanna króatíska landsliðsins á EM í Þýskalandi.

UEFA hefur tekið fyrir framkomu stuðningsfólks Króatíu í leiknum á móti Ítalíu þar sem Króatar sátu eftir með sárt ennið. Króatía var 1-0 yfir í leiknum sem hefði dugað en fékk á sig jöfnunarmark í uppbótatíma.

Sektin er upp á rúmlega 15,6 milljónir í íslenskum krónum. Þetta er stærsta sekt UEFA á mótinu en í annað skiptið sem Króatar eru sektaðir. Þeir voru líka sektaðir fyrir framkomu áhorfenda á leiknum við Albaníu.

Brotin í Ítalíuleiknum eru þrískipt. Króatar fá 45 þúsund evru sekt fyrir að það að áhorfendur köstuðu hlutum á leiknum, 30 þúsund evru sekt fyrir það að áhorfendur kveiktu á blysum á leiknum og að lokum 30 þúsund evrur fyrir óviðeigandi hegðun áhorfenda sem var ekki skilgreint frekar.

Króatar fengu 9,2 milljónir evra frá UEFA fyrir þátttöku sína á Evrópumótinu og koma því út í stórum plús þrátt fyrir þessa stóra sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×