Fótbolti

Þrátt fyrir allan bölmóðinn þá er Eng­landi enn spáð sigri á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jude Bellingham og félagar í enska landsliðinu hafa ekki hrifið marga á þessu EM.
Jude Bellingham og félagar í enska landsliðinu hafa ekki hrifið marga á þessu EM. Richard Pelham/Getty Images

Ofurtölvan fræga er enn á því að Englendingar fagni sigri á Evrópumótinu í fótbolta en sextán liða úrslitin hefjast í dag.

Fá lið hafa fengið aðra eins gagnrýni og enska landsliðið á þessu EM og kannski réttlega enda hefur huglaus og hugmyndasnauður fótbolti liðsins unnið sér inn fáa aðdáendur.

Liðið vann samt riðilinn og lenti auðveldari megin á leiðinni í úrslitaleikinn.

Það er því þannig að ofurtölvan Opta telur að það séu enn tuttugu prósent líkur á því að enska liðið verði Evrópumeistari. Ekkert liðanna sextán er með hærri sigurlíkur í mótinu.

Í öðru sæti eru Spánverjar með 17,2 prósent líkur og í þriðja sæti eru siðan heimamenn í Þýskalandi með 15,8 prósent. Frakkar eru bara í fjórða sæti með 13,4 prósent líkur en athygli vekur að það eru aðeins 8,3 prósent líkur á því að Portúgal verði Evrópumeistari.

Georgíumenn eiga minnsta möguleika á því að vinna titilinn af liðunum sem komust í sextán liða úrslitin en þeir eru aðeins með 0,3 prósent sigurlíkur. Slóvenar og Slóvakar eru örlítið ofar með 0,4 prósent líkur.

Rætist spá ofurtölvunnar þá komast England, Spánn, Þýskaland, Frakkland, Holland, Portúgal, Ítalía og Austurríki áfram upp úr sextán liða úrslitunum.

Leikirnir í undanúrslitunum yrðu síðan England-Holland og Spánn-Frakkland.

Það má sjá allar líkurnar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×