Skoðun

Að mála sig út í horn

Ingólfur Sverrisson skrifar

Ekki verður séð að minnimáttarkennd sé hótinu betri en oflátungsháttur. Síðustu vikur og mánuði hafa birst greinar eftir Hjört J. Guðmundsson þar sem hann útmálar hvað Ísland yrði lítið og pervisið ef við gengum að fullu inn í ESB og færðum okkur af göngum og náðhúsum inn á fundina þar sem mál eru rædd og ákvarðanir teknar. Hann gengur út frá því að þangað ættum við lítið erindi vegna smæðar þjóðarinnar og einstæðingsskapar. Yrðum jafnan borin atkvæðum í hverju máli sem við hefðum áhuga á að berjast fyrir enda skeyttu stóru þjóðirnar innan ESB ekkert um hagsmuni fámennari þjóðanna. Allt fyrir fram vonlaust og svart og betra að láta lítið á sér bera og fara með löndum jafnvel þótt miklir hagsmunir þjóðarinnar séu í húfi.

Ef við hefðum nálgast baráttuna fyrir útfærslu landhelginnar með þessu hugarfari og þessari „reisn” bendir allt til að lítill árangur hefði náðst í því mikla hagsmunamáli. Sem betur fer voru rökin fyrir útfærslunni sett á þeim tíma upp skipulega, þau vandlega kynnt á alþjóðavettvangi enda þótt einhverjir hefðu (eins og nú) litla trú á að við gætum haft sigur á móti vilja og hagsmunum mun stærri og voldugri þjóða. En með vel uppbyggðum rökum og kröftugri málafylgju tókst að fá viðurkenningu á landhelginni enda þótt oft hafi blásið á móti og stríðsástand ríkjandi á tímabilum. Þá var ekki látið nægja að mæla hvað aðrar þjóðir væru fjölmennar, við fámenn og gefist upp fyrir fram. Nei, trúin á málstaðinn og samstaða þjóðarinnar skóp sigur. Ef Íslendingar hefðu hins vegar ekki haft þessa sannfæringu fyrir eigin málstað, hefðum við ekki getað vænst árangurs í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Mig grunar að þáverandi forystumönnum þjóðarinnar liði ekki vel ef þeir kynntust þeim málflutningi sem nú lætur hátt og byggist á því að við séum bæði fá og smá og megum okkur lítils í alþjóða samstarfi. Nær að halda að þeir rífi nú hár sitt í Sumarlandinu vegna slíks útiboruháttar.

Mörg dæmi eru þess innan Evrópusamstarfsins að minni þjóðirnar hafa barist fyrir hagsmunamálum almennings og úr hafa orðið reglur sem nú þykja sjálfsagður hluti réttinda fólksins á svæðinu. En hitt hefur löngum verið siður margra að tína aðeins úr hillum þau málefni sem ekki tókst að koma í gegn og nýta örlög þeirra til að sýna fram á að ekkert þýði fyrir þá minni að hafast að. Allt fyrir fram vonlaust. Hins vegar hafa þessir sömu svonefndu sérfræðingar forðast að nefna í skrifum sínum og málflutningi þau málefni sem náðst hafa fram og stuðla að bættum hag venjulegs fólks. Þegja um allt þvílíkt enda þjóna slík upplýsingaskrif ekki neikvæðum málflutningi um stefnu og störf ESB.

Þótt minnimáttarkennd af þessum toga sé næsta hvimleið er þó engu betra að ofmeta eigin getu og færni. Það getur á sama hátt virkað hjárænulegt eins og þegar við héldum um síðustu aldamót að Íslendingar byggju yfir sjaldgæfum hæfileikum um meðferð fjármuna. Því jafnvel haldið fram af ábyrgum forystumönnum þjóðarinnar að þarna hefði verið um að ræða arfleifð frá tímum víkinga sem hefði þróast hér með yfirskilvitlegum hætti við ysta haf allri heimsbyggðinni til heilla. Margir létu glepjast af slíku gaspri en svo sprakk blaðran með skelfilegum afleiðingum.

Athygli vekur að margir sem mærðu þetta „fjármálaævintýri” Íslands fylla nú hóp þeirra sem andæfa að við tökum sem sjálfstæð þjóð fullan þátt ESB-samstarfinu. Þannig virðist minnimáttarkenndin hafa tekið við af oflátungshættinum og heilli þjóð tekist að mála sig út í horn. Hímir þar nú þögul og hljóð og treystir sér ekki einu sinni til að ræða hvort upptaka evru og full aðild að ESB gæti verið farsælt skref fyrir land og þjóð. Getur staðan orðið öllu snautlegri?

Höfundur er eftirlaunaþegi og fyrrum forstöðumaður samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði.




Skoðun

Sjá meira


×