Körfubolti

Faðir og sonur munu stýra syni og bróður

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Flottir feðgar sem munu reyna að koma Breiðabliki aftur upp í úrvalsdeild á næsta ári.
Flottir feðgar sem munu reyna að koma Breiðabliki aftur upp í úrvalsdeild á næsta ári. breiðablik / fotojet

Alexander Jan Hrafnsson hefur samið við karlalið Breiðabliks í körfubolta til næstu tveggja ára. Þar mun hann heyra undir stjórn föður síns og bróður, Hrafns Kristjánssonar og Mikaels Mána Hrafnssonar.

Alexander Jan er fæddur árið 2007, uppalinn Bliki og hluti af gríðarsterkum 12. flokki og ungmennaflokki félagsins. Hann tók miklum framförum á nýliðnu tímabili og var tekinn inn á æfingar með meistaraflokki eftir áramót.

Þá stýrði Ívar Ásgrímsson liðinu, hann lét sjálfur af störfum eftir tímabilið en Breiðablik endaði í neðsta sæti og féll niður úr Subway deildinni. Ívar hefur nú tekið við sem framkvæmdastjóri Álftaness. 

Við af honum tóku feðgarnir Hrafn og Mikael. Þeir eru báðir titlaðir aðalþjálfarar og deila verkum með sér.

Í viðtali sagði Mikael Máni að hann hafi fattað það fljótt að hann ætti meiri möguleika á því að ná langt í þjálfun heldur en sem leikmaður. 

Bróðir hans virðist hins vegar stefna á að spreyta sig sem leikmaður, hvort hann leiðist út í þjálfun síðar meir mun tíminn leiða í ljós en það verður spennandi að fylgjast með hvort feðgunum takist að koma Breiðabliki aftur upp í úrvalsdeild. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×