Körfubolti

Almar skoraði fjöru­tíu stig þegar Ís­land varð Norður­landa­meistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norðurlandameistarar Íslands.
Norðurlandameistarar Íslands. kkí

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum tuttugu ára og yngri varð í dag Norðurlandameistari eftir sigur á Finnlandi, 79-85. Almar Orri Atlason fór hamförum í leiknum og skoraði fjörutíu stig.

Bæði Ísland og Finnland unnu fyrstu þrjá leiki sína á Norðurlandamótinu og því var ljóst að sigurvegarinn í leik dagsins yrði Norðurlandameistari.

Íslenska liðið var fimm stigum yfir eftir 1. leikhluta, 16-21, og í hálfleik munaði sjö stigum á liðunum, 30-37. 

Íslendingar komust svo tólf stigum yfir í upphafi 3. leikhluta, 34-46, en þá tóku Finnar við sér, skoruðu fjórtán stig í röð og náðu forystunni, 48-46. Íslensku strákarnir náðu þá aftur undirtökunum og voru þremur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 59-62.

Finnar komust yfir, 69-67, en Íslendingar skoruðu næstu sjö stig og komust yfir, 69-74. Íslenska liðið lét forskotið ekki af hendi og vann að lokum sex stiga sigur, 79-85.

Almar, sem leikur með Bradley háskólanum í Bandaríkjunum, skoraði síðustu fimm stig Íslands í leiknum og alls fjörutíu stig. Hann skoraði sex þriggja stiga körfur og átta stig af vítalínunni.

ÍR-ingurinn Friðrik Leó Curtis skoraði fjórtán stig og hitti úr sex af sjö skotum sínum. Ágúst Goði Kjartansson skoraði níu stig og Kristján Fannar Ingólfsson og Daníel Ágúst Halldórsson sitt hvor sjö stigin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×