Fótbolti

Njarð­vík mis­tókst að komast á toppinn og botnliðið náði í mikil­væg stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Afturelding gerði góða ferð til Njarðvíkur.
Afturelding gerði góða ferð til Njarðvíkur. Twiter@umfafturelding

Afturelding vann góðan 5-2 sigur er liðið heimsótti Njarðvík í Lengudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma vann botnlið Þróttar mikilvægan 1-0 sigur gegn Grindavík.

Það var Liam Daði Jeffs sem skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri Þróttar gegn Grindavík. Með sigrinum lyfti Þróttur sér upp af botninum og er nú með níu stig í 11. sæti deildarinnar, en Grindvíkingar sitja í 5. sæti með 13 stig.

Þá vann Afturelding sterkan 5-2 sigur er liðið heimsótti Njarðvíkinga á sama tíma. Hrannar Snær Magnússon kom gestunum yfir strax á fjórðu mínútu áður en Elmar Kári Enesson Cogic tvöfaldaði forystu AFtureldingar með marku úr víti á 16. mínútu.

Njarðvíkingum tókst þó að jafna metin með mörkum frá Tómasi Bjarka Jónssyni á 35. mínútu og Oumar Diouck á 70. mínútu.

Gestirnir settu svo í fluggír á lokamínútum leiksins og Aron Jóhannsson kom Aftureldingu yfir á nýjan leik með marki á 77. mínútu áður en Elmar Kári Enesson Cogic skoraði annað mark sitt og fjórða mark gestanna fimm mínútum síðar. Það var svo Sævar Atli Hugason sem innsiglaði sigurinn með marki þegar um þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, lokatölur 5-2.

Á lokamínútunum sauð svo allt upp úr og fengu tveir leikmenn Njarðvíkur að líta rauðaspjaldið. Joao Ananias og Erlendur Guðnason fengu báðir reisupassann á annarri mínútu uppbótartíma og voru því aðeins á undan liðsfélögum sínum í sturtu.

Afturelding situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig, sex stigum á eftir Njarðvíkingum sem sitja í öðru sæti og hefðu komið sér á toppinn með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×