Fótbolti

Paul Pogba ekki hættur: „Ég mun berjast, fyrir sjálfan mig, gegn þessu ó­rétt­læti“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Paul Pogba sá Frakkland vinna 1-0 gegn Belgíu í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í gær.
Paul Pogba sá Frakkland vinna 1-0 gegn Belgíu í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í gær. Jonathan Moscrop/Getty Images

Paul Pogba sætir fjögurra ára banni frá fótbolta en er ekki búinn að leggja skóna á hilluna. Hann mun snúa aftur á knattspyrnuvöllinn þegar banninu lýkur.

Pogba var heiðursgestur ásamt Blaise Matuidi á leik Frakklands og Belgíu í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í gær.

„Ég er svo ánægður að finna fyrir ást fólksins, þegar ég mætti á leikinn í dag snerti það mig djúpt því ég hef verið lengi frá, að heyra fólk syngja nafnið mitt er góð tilfinning,“ sagði hann í viðtali við Sky Sport Italia eftir leik.

Pogba er í banni frá fótbolta, það er bæði keppni og skipulagðri æfingastarfsemi, þangað til í ágúst 2027. Hann verður þá á sínu 36. aldursári en inntur eftir svörum um framtíð sína var hann kýrskýr.

„Ég hef ekki gefið það neins staðar út að ég sé hættur, ég er ennþá fótboltamaður. Ég mun berjast, fyrir sjálfan mig, gegn þessu óréttlæti. Pogba er ekki búinn, Pogba er hér og þar til þú heyrir mig segja annað, hafðu engar áhyggjur.

Ég hef ofboðslega áhuga á endurkomu, mér líður aftur eins og barni sem vill verða atvinnumaður. Ég æfi og geri allt til að snúa aftur á völlinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×