Umræðan

Utan­ríkis­stefna Trumps í lykilmálum og staða Ís­lands og annarra Norður­landa

Albert Jónsson skrifar

Líkur eru á að Donald Trump sigri Joe Biden kosningunum í nóvember og verði næsti forseti Bandaríkjanna. Það er útbreidd skoðun að Biden hafi staðið sig illa í kappræðum frambjóðendanna tveggja á CNN sjónvarpsstöðinni í síðastliðinni viku. Efasemdir um að Biden sé hæfur fyrir aldurs sakir til að gegna forsetaembættinu fara vaxandi. Þegar hefur verið lagt til af hálfu ýmissa málsmetandi aðila í Bandaríkjunum að hann hætti við framboðið. Verði hann við því opnast auðvitað nýir möguleikar en ótímabært er að velta þeim fyrir sér og hugsanlegum áhrifum á stefnu Bandaríkjanna í utanríkismálum.*

Sigurlíkur Trumps fara líklega vaxandi en fyrir kappræðurnar hafði hann forskot á Biden bæði almennt og í lykilríkjum.

Hvaða áhrif hefði Trump forseti á utanríkisstefnu Bandaríkjanna? Líklega minni áhrif en margur kann að halda. Það yrði engin breyting hvað stærsta málið varðar sem er samskiptin við Kína og harðnandi samkeppni þessara tveggja stórvelda. Um stefnuna í því máli er í grunninn samstaða í bandarískum stjórnmálum.

Bandaríkin halda það ekki út svo árum skiptir að styðja Úkraínu í þeim mæli sem verið hefur og án niðurstöðu. Sama mun koma á daginn hvað varðar ýmis mikilvæg Evrópuríki í NATO.

Þá er engin grundvallarmunur á afstöðu Bidens og Trumps hvað varðar Miðausturlönd, Ísrael og Palestínu, stríðið á Gaza og Íran.

En hvað með samskiptin við Rússland og Úkraínustríðið?

Vísbendingar eru uppi um að Trump kæmi fljótlega fram með þrýsting á Úkraínu um að fallast á vopnahlé og samninga við Rússa. En það er einnig líklegt að Biden eða annar forseti úr röðum demókrata ef svo bæri undir mundi þrýsta fyrr en seinna eftir forsetakosningarnar á Úkraínu um vopnahlé og friðarsamninga við Rússa.

Án samninga stefnir í langvarandi stríð og Bandaríkin halda það ekki út svo árum skiptir að styðja Úkraínu í þeim mæli sem verið hefur og án niðurstöðu. Sama mun koma á daginn hvað varðar ýmis mikilvæg Evrópuríki í NATO. Þannig yrði stefna Bandaríkjanna gagnvart Úkraínu í grundvallaratriðum óháð niðurstöðu forsetakosninganna í nóvember.

Hvort heldur það yrði Trump eða Biden mundi Bandaríkjastjórn þrýsta á Úkraínu um vopnahlé og samninga. Úkraínu yrði í veikri stöðu af því hún á ekki aðra kosti en treysta á stuðning frá NATO og Bandaríkjunum.

Vísbendingar eru uppi um að Trump kæmi fljótlega fram með þrýsting á Úkraínu um að fallast á vopnahlé og samninga við Rússa.

Eftir stendur lykilspurning um afstöðu Rússlandsstjórnar, hvort og hvaða þrýstingi hún yrði beitt og hvernig brugðist yrði við ef hann bæri ekki árangur. Það gæti reynt mjög á einingu NATO. Þá eru áhyggjur af því í bandalagsríkjum að Trump geri harðar kröfur um að Evrópuríki þess beri meira af kostnaðinum af sameiginlegum vörnum, leggi mesta áherslu á samkeppnina við Kína og lendi í útistöðum við Evrópuríkin vegna viðskipta og loftslagsmála.

En hvaða áhrif hefði endurkoma Trumps í Hvíta húsið á norðurslóðir, Ísland og hin Norðurlöndin - sem eru öll í NATO eftir aðild Finna og Svía að bandalaginu?

Ísland hefur áfram svipaða hernaðarlega þýðingu og undanfarin ár fyrir Bandaríkin og NATO. Hins vegar hefur mikilvægi Noregs aukist í kjölfar þess að Bandaríkjaher hefur með samningum fengið mun meiri aðgang en áður að Noregi fyrir bækistöðvar og umsvif. Þá hefur sú grundvallarbreyting orðið á norðurslóðum að Finnland og Svíþjóð hafa ekki einungis nýlega gengið í NATO heldur einnig, líkt og Noregur, gert samninga við Bandaríkin um aðgang fyrir Bandaríkjaher að stöðvum á finnsku og sænsku landi. Umsvif hans á norðurslóðum höfðu þegar aukist verulega á undanförnum árum.

Stjórn Trumps myndi í engu vilja minnka hernaðarsamstarf Bandaríkjanna við Norðurlöndin, jafnvel þótt tengsl Bandaríkjanna við NATO og torvelduðust og veiktust.

Þessi þróun öll eykur ógn við Norðurflota Rússlands, stöðvar hans á Kolaskaga og kjarnorkuherstyrk Rússlands. Það styrkir á hinn bóginn stöðu Bandaríkjanna hvað varðar kjarnorkujafnvægið við Rússland og eflir fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO gegn Rússlandi á norðurslóðum og á meginlandi Evrópu.

Strategískt mikilvægi norðurslóða fyrir Bandaríkin er óbreytt um leið og þýðing Finnlands, Noregs og Svíþjóðar í því efni er mikil og vaxandi. Norðurlönd skipta þannig miklu fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna.

Af þeim sökum mundi stjórn Trumps í engu vilja minnka hernaðarsamstarf Bandaríkjanna við Norðurlöndin, jafnvel þótt tengsl Bandaríkjanna við NATO og torvelduðust og veiktust. Hvernig Norðurlöndin kysu að haga samskiptum við Bandaríkin við þær aðstæður er annað mál.


Höfundur er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál og fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Rússlandi.

*Greinin birtist fyrst á vefsvæði Alberts á Facebook og heimasíðu þar sem hann fjallar reglulega um alþjóðamál.






×