Erlent

Friðhelgin stórauki vald for­setans

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Svanhildur Þorsteinsdóttir ræddi ástandið í Bandaríkjunum í kvöldfréttum.
Svanhildur Þorsteinsdóttir ræddi ástandið í Bandaríkjunum í kvöldfréttum. stöð 2

Dósent í stjórnmálafræði segir niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna, þess efnis að Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti geti notið friðhelgi frá ákærum vegna embættisverka hans, munu hafa mikil áhrif á kosningabaráttuna framundan. 

Ákvörðun hæstaréttar hefur raunar þegar haft áhrif. Fyrr í kvöld ákvað dómari í New York ríki að fresta ákvörðun um refsingu í máli Donald Trump fram í september á þessu ári.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sem á nú í harðri kosningabaráttu við Trump gagnrýndi ákvörðun réttarins harðlega í dag. Um sé að ræða grundvallarbreytingu sem þýði að það séu engin takmörk fyrir því hvað forseti geti gert. 

„Því vald embættisins verður ekki lengur takmarkað með lögum. Ég óttast um lýðræði okkar og er þessu því ósammála. Bandaríska þjóðin ætti að vera þessu líka ósammála,“ sagði Biden í dag. 

Svanhildur Þorvaldsdóttir dósent í stjórnmálafræði ræddi málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það er búið að flækja töluvert hvers konar gögn og upplýsingar sé hægt að nýta til að lögsækja forseta fyrir verk á meðan hann er í embætti,“ segir Svanhildur. 

„Þetta á eftir að hafa þau áhrif að ekkert af þessum dómsmálum, sem liggja fyrir núna, eiga eftir að klárast fyrir kosningar. Það var ólíklegt áður en er orðið því sem næst ómögulegt núna. Þetta á eftir að halda áfram að vera í umræðunni. Nú er búið að leggja fyrir neðra dómstig að fara yfir öll gögn í málinu. Hvað megi nýta og hvað ekki. Þetta verður í umræðunni í kosningabaráttunni þegar hún fer að fullu af stað í haust.“

Svanhildur segir að búast megi við því að Demókratar beini ljósi að bandarísku lýðræði til frambúðar. 

„Munum við halda því? Þetta á eftir að lita umræðuna á ýmsan hátt. 

Trump á vafalaust eftir að áfrýja aftur og það eru jafnvel ár þangað til að Hæstiréttur úrskurðar aftur um einhver skjöl. Það er ýmislegt loðið í þessu og við eigum eftir að sjá hvernig dómstólar túlka þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×