Fótbolti

Fylgdust með hjart­slætti Ronaldo í leiknum á móti Slóveníu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo grét sáran eftir að hann klúðraði víti sínu en náði aftur tökum á sér og nýtti mikilvægt víti í vítakeppninni.
Cristiano Ronaldo grét sáran eftir að hann klúðraði víti sínu en náði aftur tökum á sér og nýtti mikilvægt víti í vítakeppninni. Getty/Robbie Jay Barratt

Það voru ekki bara augu á Cristiano Ronaldo í leiknum við Slóvena í sextán liða úrslitum Evrópumótsins því einnig var fylgst náið með hjartslætti leikmannsins í þessum mikilvæga leik.

Ronaldo náði ekki að skora sitt fyrsta mark á Evrópumótinu en hann kom engu að síður mikið við sögu. Hann fékk frábært tækifæri í framlengingunni en klikkaði þá á vítaspyrnu. Hann bætti síðan fyrir það með því að skora úr fyrstu vítaspyrnu Portúgala í vítakeppninni.

Ronaldo er 39 ára gamall og spilaði allar 120 mínútur leiksins. Hann fékk smá hvíld í leiknum við Georgíu en annars hefur hann verið allan tímann inn á vellinum hjá Portúgölum.

Það er því athyglisvert að skoða hvernig hjartsláttur hans var á þessum æsispennandi lokamínútum á mánudagskvöldið. Ronaldo er í samstarfi við Whoop sem fékk að birta grafíska mynda af hjartslætti hans á lokakafla leiksins.

Þar sést að hjartsláttur er mjög hár þegar leikurinn er flautaður af og ljóst að vítaspyrnukeppni muni ráða úrslitum. Ronaldo nær í framhaldinu að róa niður hjartslátt sinn og hann er aldrei lægri en einmitt þegar hann tekur þetta mikilvæga víti sitt í vítakeppninni.

Hjartslátturinn tekur síðan kipp þegar markvörður Portúgala, Diogo Costa, ver sitt annað víti sem og við annað mark Portúgala í vítakeppninni sem Bruno Fernandes skoraði.

Hjartsláttur Ronaldo rýkur síðan upp þegar Bernando Silva tryggir portúgalska liðinu sigurinn í vítakeppninni og um leið sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Það má sjá þessa athyglisverðu grafík hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×