James fær 104 milljónir dollara fyrir þessi tvö tímabil sem gera 14,4 milljarða í íslenskum krónum. Það er samt undir James komið hvort hann spilar seinna tímabilið (2025-26) og það er heldur ekki hægt að skipta honum í annað lið.
James heldur upp á fertugsafmælið sitt 30. desember næstkomandi en hann er í hópi allra bestu NBA leikmanna allra tíma og er í toppsætinu hjá mörgum. Enginn hefur heldur náð að skila svona frammistöðu í deildinni á hans aldri.
James er sá eini til að skora meira en fjörutíu þúsund stig en hann er áttundi í stoðsendingum frá upphafi, fjórði í stolnum boltum og sjötti í þriggja stiga körfum.
Á síðasta tímabilið var James valinn í tuttugasta sinn í stjörnuleikinn sem er met.
Hann var einnig valinn í þriðja úrvalslið tímabilsins eftir að hafa skilað 25,7 stigum, 7,3 fráköstum og 8,3 stoðsendingum að meðaltali í leik og hitti úr 54 prósent skota sinna.
Þetta þýðir að James mun spila við hlið sonar síns Bronny James sem Lakers valdi í nýliðavalinu á dögunum. Það er tuttugu ára aldursmunur á feðgunum. James hefur lengi talað um að spila með syni sínum og nú verður það að veruleika.
Free agent LeBron James has agreed to a two-year, $104 million maximum deal to return to the Los Angeles Lakers, sources tell ESPN. Deal includes player option and no trade clause. pic.twitter.com/gAEOmvfAzZ
— Adrian Wojnarowski (@wojespn) July 3, 2024