Víkingur er komið í úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í fimmta skiptið í röð eftir sigur á Stjörnunni í vítaspyrnukeppni. Víkingar skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum á meðan Ingvar Jónsson varði eina spyrnu Stjörnunnar.

Fyrstu tuttugu mínúturnar hélt Víkingur betur í boltann og ógnaði meira. Erlingur Agnarsson, leikmaður Víkings, fékk færi inn í teig Stjörnunnar til þess að koma heimamönnum yfir en hann átti skot í stöngina.

Danijel Dejan Djuric kom heimamönnum yfir í Víkinni með frábæru marki í fyrri hálfleik. Það leit lengi vel út fyrir að það mark myndi skila Víkingum á Laugardalsvöll en í blálokin jafnaði Guðmundur Kristjánsson og því þurfti að framlengja.


Þar gerðist heldur lítið og því var leikurinn útkljáður með vítaspyrnukeppni þar sem Víkingar reyndust betri aðilinn. Annað árið í röð er það því Víkingur sem mætir KA í úrslitum.

Atvik leiksins
Það voru fimm mínútum bætt við venjulegan leiktíma og á 95 mínútu jafnaði Guðmundur Kristjánsson metin og tryggði Stjörnunni framlengingu. Leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni og það var Guðmundi að þakka hversu mikil skemmtun þessi knattspyrnuleikur var.
Stjörnur og skúrkar
Danijel Dejan Djuric var líflegur að vanda í liði Víkings. Hann skoraði eina markið í fyrri hálfleik og allt benti til þess að það yrði sigurmarkið en Stjarnan jafnaði í uppbótartíma.
Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, var ekki bara öflugur í hjarta varnarinnar heldur tryggði hann sínu liði framlengingu með marki á 95. mínútu.

Haukur Örn Brink, leikmaður Stjörnunnar, var skúrkur kvöldsins. Haukur tók þriðja víti Stjörnunnar og lét verja frá sér. Haukur var sá eini sem brenndi af víti.
Dómarinn
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi leik kvöldsins. Vilhjálmur var með góð tök á leiknum og veifaði gulum spjöldum þegar það átti við.

Vilhjálmur fær 7 í einkunn.
Stemning og umgjörð
Stemningin var góð í Víkinni en fleiri hefðu mátt mæta þar sem sæti í úrslitum Mjólkurbikarsins var í boði. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, óskaði eftir 2000 manns en undir 1000 manns mættu á völlinn.