Umræðan

Hóf­legar hús­næðis­verðs­hækkanir fram­undan

Halldór Kári Sigurðarson skrifar

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,6% að raunvirði í maí. Árstakturinn stendur þar með í 2,4% og er kominn yfir langtímameðaltalið í fyrsta skipti síðan undir lok árs 2022.

Nýjasta skýrsla HMS sýnir að kaupendahópurinn á húsnæðismarkaðnum heldur áfram að breytast. Fjölgun kaupsamninga er langt umfram útlánavöxt og því útlit fyrir að kaup sem gerð eru í fjárfestingaskyni fari vaxandi.

Fjárfestar virðast vænta frekari verðhækkana, sennilega vegna Grindavíkuráhrifanna, auk væntinga um lækkun stýrivaxta á næstu misserum.

Sögulega hefur arðsemi fjárfestinga í íbúðarhúsnæði á Íslandi verið drifin áfram af húsnæðisverðshækkunum frekar en leigutekjum. Þegar litið er á þróunina frá því að heimsfaraldurinn kom til landsins má einmitt sjá að leiguverð hefur staðið í stað að raunvirði þrátt fyrir að annars mætti vænta í ljósi hærra húsnæðisverðs og mun hærra vaxtastigs.

Það er áhugavert að framboð íbúða hefur haldist stöðugt þrátt fyrir aukna eftirspurn frá Grindvíkingum. Hluta Grindavíkuráhrifanna virðist hafa verið mætt með skjótari handtökum við klára nýjar íbúðir en það kemur að einhverju leyti á óvart að enn séu yfir 3.300 íbúðir til sölu á landinu sem er meira en allt sem var byggt í fyrra.

Horft fram á við munu fólksfjölgun, vilji til verðtryggðrar lántöku, minni íbúðauppbygging og Grindavíkuráhrifin styðja við hækkun húsnæðisverðs. Á móti kemur að ráðstöfunartekjur hafa ekki haldið í við húsnæðisverð og reglur um hámarksgreiðslubyrði halda mörgum mögulegum kaupendum fyrir utan markaðinn ásamt auðvitað háu vaxtastigi.

Það er áhugavert að framboð íbúða hefur haldist stöðugt þrátt fyrir aukna eftirspurn frá Grindvíkingum.

Lítilsháttar stýrivaxtalækkanir munu ekki hleypa markaðnum á flug en ef Seðlabankinn slakar á reglum um hámarksgreiðslubyrði má ætla að áhrifin yrðu meiri.

Undirritaður telur að á næstu 1-2 árunum muni undirliggjandi íbúðaskortur leiða til hóflegra raunverðshækkana.

Fyrir hönd Húsaskjóls, Halldór Kári Sigurðarson, hagfræðingur.


Tengdar fréttir

Eftir­spurnar­sjokk á hús­næðis­markaðnum

Þrátt fyrir að hugsa megi eftirspurn frá Grindvíkingum sem einhvers konar einskiptis eftirspurnarsjokk þá má ætla að áhrif þess muni vara í allt að tvö ár vegna þess hve seigfljótandi nýtt framboð er.






×