Fótbolti

Bannar eigin­konurnar ef þeir vinna leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Arfaoui er eiginkona þýska landsliðsfyrirliðans Ilkay Guendogan.
Sara Arfaoui er eiginkona þýska landsliðsfyrirliðans Ilkay Guendogan. Getty/Alexander Hassenstein

Eiginkonur þýsku landsliðsmannanna hafa fengið á heimsækja þá á Evrópumótinu til þessa en það mun breytast ef þýska liðið kemst í undanúrslitin.

Þýska landsliðið hefur ekki unnið Evrópumótið í 28 ár en þýskur leikmennirnir hafa verið að spila vel á EM í ár.

Þýskaland mætir Spáni á morgun í átta liða úrslitunum og sigurvegarinn mætir annað hvort Frakklandi eða Portúgal í undanúrslitaleiknum.

Þýska blaðið Bild slær því upp að landsliðsþjálfarinn Julian Nagelsmann vilji alls engar truflanir komist þýska liðið í undanúrslitin. Það þýðir að eiginkonur leikmannanna mega ekki lengur koma á hótelið eftir leikinn í átta liða úrslitunum.

Hingað til hafa þær fengið að hitta sína menn eftir hvern leik liðsins. Eftir fyrsta leikinn á móti Skotlandi þá fengu kærustur og eiginkonur þannig að koma til sinna manna þótt að það væri eftir miðnætti.

Það er styttra á milli leikja undir lok mótsins og nú vill Nagelsmann að leikmenn sínir séu með fulla einbeitingu á verkefnið.

Átta liða úrslitin eru spiluð 5. júlí en undanúrslitaleikurinn er síðan fjórum dögum síðar. Það liðu aftur á móti sex dagar á milli leikja þýska liðsins í sextán liða og átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×