Körfubolti

Rekinn í vetur en ráðinn á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Medina með Tryggva formanni Hamars en þó nokkrir Hamarsstrákar og foreldrar þeirra eru stödd í körfuboltabúðum Jose Medina á Spáni.
Jose Medina með Tryggva formanni Hamars en þó nokkrir Hamarsstrákar og foreldrar þeirra eru stödd í körfuboltabúðum Jose Medina á Spáni. @hamarkorfubolti

Það kemur alltaf dagur eftir þennan dag og besta að brenna ekki brýr að baki sér. Hamarsmenn hafa nú kallað aftur í leikmann sem félagið sagði upp störfum síðasta vetur.

Hér erum við að tala um spænska leikstjórnandann Jose Medina. Hann var fórnarlamb þess þegar Hamarsmenn stokkuðu upp lið sitt á miðri leiktíð til að reyna að bjarga liðinu frá falli.

Körfuknattleiksdeild Hamars segir nú frá því á miðlum sínum að hún hafi gert samning við Jose Medina að spila með liðinu í 1.deild karla tímabilið 2024-25.

Hamar féll úr Subway deild karla í vor en Medina kláraði tímabilið í næsta bæjarfélagi eða með Þórsurum frá Þorlákshöfn.

Orðinn Hvergerðingur í húð og hár

„Jose þekkja allir Hamars stuðningsmenn og er klárlega orðinn Hvergerðingur í húð og hár. Við hlökkum öll til að fá Jose aftur heim til að hjálpa liðinu að berjast í baráttunni í 1. deild karla á næsta tímabili,“ segir í frétt á miðlum Hamars.

Medina var allt i öllu þegar Hamarsmenn komust upp í Subway deildina vorið 2023. Hann var þá með 28,9 stig og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Spánverjinn náði ekki að skila alveg því eins góðum tölum í Subway deildinni. Hann var með 12,0 stig og 5,7 stoðsendingar í leik í leikjum sínum með Hamri í Subway deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×