Fótbolti

Spán­verjar hafa aldrei unnið heimaþjóð þegar allt er undir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nico Williams fagnar marki spænska landsliðsins í sextán liða úrslitunum. Nú reynir á Spánverjana á móti gestgjöfum Þjóðverja.
Nico Williams fagnar marki spænska landsliðsins í sextán liða úrslitunum. Nú reynir á Spánverjana á móti gestgjöfum Þjóðverja. Getty/Alex Grimm

Spænska fótboltalandsliðið hefur spilað vel á Evrópumótinu í Þýskalandi en nú bíður liðsins afar krefjandi verkefni og múr sem landslið Spánverja hefur aldrei komist í gegnum.

Spánverjar mæta gestgjöfum Þjóðverja í átta liða úrslitum EM klukkan 16.00 í dag.

Spænska karlalandsliðið í fótbolta hefur aldrei unnið leik upp á líf eða dauða á móti heimaþjóð á stórmóti. Hér erum við að tala um úrslitaleik í riðlakeppni eða leik í útsláttarkeppni á HM eða EM.

Þetta eru líka orðin níu skipti allt frá HM 1934 til HM 2018.

Síðast mættu Spánverjar gestgjöfum á HM í Rússlandi 2018. Sá leikur var í sextán liða úrslitunum. Rússarnir unnu 4-3 í vítakeppni eftir að leikurinn endaði með 1-1 jafntefli.

Síðasti leikur Spánverja upp á líf eða dauða á móti heimaþjóð á Evrópumóti var á móti Portúgal á EM 2004. Þetta var lokaleikur þjóðanna í riðlinum og hreinn úrslitaleikur um sæti í átta liða úrslitum. Portúgal vann leikinn 1-0 á marki Nuno Gomes.

Á EM í Englandi 1996 töpuðu Spánverjar í vítakeppni á móti Englendingum í átta liða úrslitum. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en England vann vítakeppnina 4-2.

Þá er frægur leikur frá HM í Suður-Kóreu 2002 þegar spænska liðið tapaði í vítakeppni á móti Kóreumönnum. Spánverjar skoruðu tvö mörk í þessu markalausa jafntefli en þau voru dæmd af sem var mjög umdeild.

Á EM 1984 tapaði spænska landsliðið á móti Frökkum í úrslitaleik eftir að markvörður liðsins missti aukaspyrnu Michel Platini undir sig.

Það verður því athyglisvert að sjá hvernig fer hjá Spánverjunum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×