Íslenski boltinn

ÍTF í her­ferð gegn tölfræðiþjófum: „Þetta er lang­stærsti sam­starfs­samningur ís­lenskra fé­laga í heild sinni“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF, lítur það alvarlegum augum að brotið sé gegn stærsta samstarfssamningi íslenskra félaga. 
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF, lítur það alvarlegum augum að brotið sé gegn stærsta samstarfssamningi íslenskra félaga.  vísir

Ólögleg tölfræðisöfnun á sér stað á leikjum í Bestu deildinni. Hagsmunasamtökin Íslenskur toppfótbolti hafa hrundið af stað herferð gegn þjófunum sem laumast um og brjóta gegn vörðum réttindum íslenskra knattspyrnufélaga.

Hér á landi er fyrirtækið Genius Sports með einkaleyfi á tölfræðisöfnun, sem fyrirtækið selur svo áfram til veðmálasíðna og úr þeirri upplýsingagjöf verða til veðmálastuðlar.

Genius Sports sendir fulltrúa á alla leiki í Bestu deildum karla og kvenna en borið hefur á því að aðrir, ómerktir og ólöglegir aðilar frá öðrum fyrirtækjum mæti á leiki og sinni þessari gagnasöfnun.

„Í þessu eins og mörgu öðru þar sem við erum að selja réttindi, seljum við einum aðila og sá aðili er sá eini sem hefur heimild til að safna þessum gögnum. Það eru aðilar sem sækja hér leiki og hreinlega stela þessum upplýsingum, við getum ekki unað því og erum því í samstarfi við félögin að vísa þessum aðilum á brott vegna þess að þeir hafa ekki heimild til að stunda þessa iðju,“ sagði Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF. 

Langstærsti samstarfssamningur íslenskra félaga

Ljóst er að um mikla hagsmuni er að ræða fyrir félögin í efstu deild og grafalvarlegt er ef gegn samningnum er brotið.

„Ég get ekki farið út í neinar tölur en þetta er langstærsti samstarfssamningur íslenskra félaga í heild sinni. Mjög stór samningur og mun vonandi vaxa að því gefnu að við höldum þessum einkarétti virtum.“

ÍTF hefur því hrundið af stað herferð gegn ólöglegri tölfræðisöfnun á leikjum í Bestu deildinni. 

„Framkvæmdin er nokkuð einföld, Genius Sports sendir aðila á leikina, sem vinnur þá með heimaliðinu og vaktar leikina. Fylgjast með því hvort aðilar séu að safna gögnum, það er nokkuð sýnilegt og ef þeir finna aðilann þá er þeim vísað út. Við erum að vinna í samstarfi við öryggisfyrirtæki að vinna með okkur í þessu, ásamt því að skoða lagalegu hliðina líka.“

Innslagið allt úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×