Fótbolti

Meistara­deild Evrópu: Breiða­blik mætir FC Minsk | Valur mætir Lju­boten

Aron Guðmundsson skrifar
Það er orðið ljóst hvaða lið bíða Vals og Breiðabliks í fyrsta hluta forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í fótbolta. Dregið var í forkeppnina í morgun
Það er orðið ljóst hvaða lið bíða Vals og Breiðabliks í fyrsta hluta forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í fótbolta. Dregið var í forkeppnina í morgun Vísir/Samsett mynd

Dregið var í forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í fótbolta nú rétt í þessu við hátíðlega athöfn í Nyon í Sviss. Tvö íslensk lið, Valur og Breiðablik, voru í pottinum. Valur mætir ZFK Ljuboten frá Norður-Makedóníu, Breiðablik mætir FC Minsk frá Hvíta-Rússlandi.

Forkeppninni fyrir Meistaradeild Evrópu er skipt upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum taka liðin þátt í smámóti (e.mini tournament) sem felur í sér undanúrslit og svo úrslitaleik um sæti í næstu umferð. Þar tekur við útsláttarkeppni, einvígi, þar sem leikið er heima og að heiman gegn einu og sama liðinu. 

Komist liðin í gegnum þessa tvo hluta hefur það tryggt sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu sem skipt er upp í fjóra fjögurra liða riðla.  

Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals munu mæta ZFK Ljuboten frá Norður-Makedóníu  í undanúrslitum þessa fyrri hluta forkeppni Meistaradeildarinnar. Vinni liðið þann leik bíður úrslitaleikur gegn sigurvegaranum úr leik Twente frá Hollandi og Cardiff City frá Wales um sæti í næsta hluta forkeppninnar. 

Valur komst í hluta umferð forkeppni Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili en laut þá í lægra haldi í einvígi gegn austuríska liðinu St.Pölten.

Segja má að Breiðablik hafi fengið vænlegasta dráttinn í sínum hluta miðað við liðin sem þar voru í boði. Þar dróst liðið á móti FC Minsk frá Hvíta-Rússlandi en slapp við lið á borð við Arsenal, Atletico Madrid og Paris frá Frakklandi.

Sigurvegarinn í leik Breiðabliks og FC Minsk fer í úrslitaleik gegn sigurvegarnum í undanúrslitaviðureign Frankfurt frá Þýskalandi og Sporting frá Portúgal um sæti í næsta hluta forkeppninnar.

Forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna í fótbolta hefst í byrjun september. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×