Vestri tók á móti Breiðabliki á Kerecis vellinum á Ísafirði fyrr í dag. Það var blíðskaparveður á Ísafirði er Vestri reyndi að sækja sinn fyrsta sigur á eiginlegum heimavelli sínum í sumar. Verkefnið var ærið þar sem andstæðingurinn var Breiðablik sem sat í öðru sæti deildarinnar.
Það tók gestina 16 mínútur að sækja fyrsta mark leiksins. Það kom úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Viktori Karli i teig Vestra. Úr vítinu skoraði Höskuldur Gunnlaugsson örugglega. Dómurinn var umdeildur en markið stóð.
Vestri þjarmaði nokkuð að Blikum eftir markið og náðu að lokum að brjóta ísinn á 27. mínútu. Þar var á ferðinni Sergine Fall sem skoraði eftir hornspyrnu Vestra. Hornspyrnan endar í bakinu á Morten Hansen og í átt að markinu. Anton Ari ver vel í marki Blika en boltinn í stöngina og út á Sergine sem er með opið mark fyrir framan sig og skorar örugglega.
Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en óhætt var að segja að Breiðablik gat prísað sig sæla að vera með jafntefli í hálfleik.
Eftir að Vestri hafði einnig byrjað seinni hálfleikinn af krafti voru það Blikar sem skoruðu næsta mark leiksins á 57. mínútu. Það kom eftir aukaspyrnu Höskuldar Gunnlaugssonar inní teig þar sem daninn Daniel Obbekjær svífur höfði hærra en allir aðrir í teignum og skallar boltann listilega í markið.
Blikar tóku öll völd á vellinum eftir markið, eða allt þar til heimamenn skoruðu mark uppúr þurru á 65. mínútu. Þar var það Sergine Fall aftur á ferðinni en hann átti hættulega fyrirgjöf fyrir teiginn þar sem Andri Rúnar Bjarnason lætur boltann fara framhjá sér, beint á Benedikt Waren var aleinn á teignum. Hann nær góðu skoti og boltinn söng í netinu. Staðan jöfn á ný.
Fleiri mörk komu ekki í þessum leik og jafntelfi staðreynd. Sanngjörn úrslit að lokum þar sem liðin skiptust á að vera með völdin á vellinum. Vestri voru sterkari í fyrri hálfleik en Blikar líklegri í þeim seinni.
Vestri náði þar með í sitt fyrsta stig á Ísafirði en liðið hefur þó ekki unnið í rúman mánuð eða síðan 2. júní. Liðið er komið í fallsæti og þurfa að finna taktinn á ný ef þeir ætla að koma sér þaðan.
Breiðablik hljóta að naga sig í handabökin. Liðið koma ansi flatt til leiks og virtust hreinlega ekki komast uppúr fyrsta gír fyrr en í seinni hálfleik. Fyrir tveimur vikum gat liðið stokkið í toppsætið með sigri en hafa síðan þá ekki náð að vinna leik. Þrír leikir í röð án sigurs eftir daginn í dag og spurning hvort þeir séu að missa af lestinni?
Atvik leiksins
Vítið í fyrri hálfleik. Viktor Karl fær sendingu fyrir, nær aldrei taki á boltanum og hann skoppar burt. Við það fær hann það sem virðist vera lítil snerting og fellur við. Ívar Orri dómari leiksins hugsar sig um í örfáar sekúndur og bendir svo á vítapunktinn. Ákaflega ódýr dómur og kom á tíma þar sem heimamenn voru með algjöra stjórn á leiknum. Ef ekki hefði verið fyrir þetta hefðu heimamenn líklega verið með 1-0 stöðu í hálfleik og geta skipulagt leik sinn í kringum það. Dýrt fyrir Vestra.
Stjörnur og skúrkar
Sergine Fall var frábær í liði Vestra, hann skoraði og lagði upp í dag. Hann var nokkuð öruggur varnarrlegur og alltaf að skapa hættu sóknarlega. Auk hans var Benedikt Waren mjög hættulegur í liði Vestra og náði að skora eitt mark.
Hjá Breiðablik var Höskuldur Gunnlaugsson virkilega öflugur að vanda. Lagði upp og skoraði úr vítinu. Sýndi gæði sín ítrekað og var einn af fáum sem náðu að skapa eitthvað í gegnum þykkan múr Vestra.
Sóknarlína Breiðabliks hefur átt betri leik. Þeim gekk illa að komast í gegnum vörn Vestra og það stóð bara lítil sem engin hætta af þeim.
Dómarinn
Ívar Orri er einn allra besti dómari landsins. Þetta var hinsvegar ekki alveg hans besti dagur. Vítið sem Breiðablik fékk í fyrri hálfleik átti einfaldlega aldrei að standa. Þar fyrir utan var hann að flauta of mikið á of lítið sem kom niður á flæði leiksins. 4,5/10
Stemning og umgjörð
Það er frábært að hafa Ísfirðinga í Bestu deildinni, það var frábær umgjörð og stemmning á þessum fallega degi. Vallarstæðið er auðvitað eitt það allra fallegasta á landinu og í raun einstök upplifun.