Innlent

Glæsi­legt gullregn og hlynur í Hvera­gerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Adda Hörn og Ólafur Jóhann, sem búa við götuna Reykjamörk í Hveragerði hér hjá glæsilega gullregninu sínu.
Adda Hörn og Ólafur Jóhann, sem búa við götuna Reykjamörk í Hveragerði hér hjá glæsilega gullregninu sínu. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eitt glæsilegasta gullregn landsins, ef ekki það glæsilegasta er í garði í Hveragerði en það hefur aldrei blómstrað jafn mikið og í sumar. Þá er líka glæsilegur hlynur í garðinum.

Það er einstaklega gaman að koma í garðinn hjá þeim Öddu Hörn og Ólafi Jóhanni í Reykjamörkinni því garðurinn er svo vel hirtur og fallegur. Fallegast er þó gullregnið þeirra, sem er í miklum blóma þessa dagana eins og gullregn svo víða á Suðurlandi á þessum árstíma.

„Við höldum að það hafi verið sett niður einhvern tímann rétt eftir 1970. Það er mjög fallegt en það er aðeins mismunandi á milli ára hvernig það er en ég segi oft, ég held að það hafi aldrei blómstrað eins mikið og núna en kannski er þetta bara svipað og það var. Í fyrra komu bara nokkrar greinar með blóm en það er mjög flott núna í ár,” segir Adda.

Hverju þakkar þú það að það sé svona flott núna?

„Ég veit það ekki, það tengist eitthvað veðrinu þegar það springa út bara nokkur blóm, það tengist eitthvað vorveðrinu held ég.”

Og Adda segir tréð vekja mikla athygli í Hveragerði.

„Jú, jú, ég sé það alveg, fólk er að mynda það hérna, fólk, sem kemur í Listaskálann og svo bara gangandi vegfarendur, þeir stoppa hérna við og mynda, enda mjög fallegt tré,” segir Adda.

Gullregnið hefur líklega aldrei blómstrað eins fallega og í sumar enda er það mjög glæsilegt eins og sjá má.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En það er ekki bara glæsilegt gullregn í garðinum því þar er líka mjög fallegur hlynur eða garðahlynur eins og hann heitir.

„Já, hann er líka mjög glæsilegur.“

En hvort er nú í meira upphaldi, hlynurinn eða gullregnið hjá Öddu?

„Gullregnið á meðan það er í blóma en hlynurinn svo líka, ekki síður, hann er mjög fallegur, gefur gott skjól og svona.“

Og gæðastundir hjónanna í Reykjamörkinni eru í nýja gróðurhúsinu þar sem er sumar allt árið.

„Við setjumst oft út á morgnanna með kaffibollann við hjónin og þetta lengir bæði sumarið og fram á haust og líka að maður geti sést út þegar það er rigning og hlustað bara á rigninguna í gróðurhúsin, það er mjög gott,” segir Adda alsæl með garðinn sinn, lífið og nýja gróðurhúsið.

Garðahlynurinn er einstaklega fallegur hjá þeim Öddu og Ólafi.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×