Fótbolti

Hetja Spánar hermdi eftir pabba á sama stað

Sindri Sverrisson skrifar
Mikel Merino var í skýjunum eftir sigurinn gegn Þýskalandi í kvöld.
Mikel Merino var í skýjunum eftir sigurinn gegn Þýskalandi í kvöld. Getty/Alex Caparros

Mikel Merino, hetja Spánar í sigrinum gegn Þýskalandi á EM í kvöld, hermdi eftir fagnaðarlátum föður síns sem skoraði á sama velli fyrir 33 árum síðan.

Hinn 28 ára gamli Merino hafði aðeins skorað eitt A-landsliðsmark fyrir Spán áður en hann skoraði undir lok framlengingar í kvöld, og tryggði Spáni 2-1 sigur sem skilaði liðinu í undanúrslit á EM.

Það er merkileg staðreynd að fyrsti A-landsleikur Merino, árið 2020, var einmitt einnig á leikvanginum í Stuttgart. Og þar skoraði pabbi hans, Ángel, sitt eina mark fyrir Osasuna, í 3-2 sigri á Stuttgart í UEFA-bikarnum árið 1991.

„Það er einhver lukka yfir þessum leikvangi fyrir mig. Pabbi minn skoraði líka hérna, þegar hann spilaði, svo við munum alltaf muna eftir þessum velli,“ sagði Merino eftir sigurinn í kvöld. Eftir sigurmark sitt hljóp hann að hornfánanum og fór í kringum hann, rétt eins og pabbi hans gerði.

Merino var skiljanlega hæstánægður eftir sigurinn en Spánverjar þurfa hins vegar að spjara sig án Daniel Carvajal, sem fékk rautt spjald í lok leiks í kvöld, og Robin Le Normand sem er einnig kominn í bann vegna gulra spjalda. Alls fór gula spjaldið fimmtán sinnum á loft í kvöld.

„Við bjuggumst við nákvæmlega svona leik. Tvö af bestu liðum heims. Þetta hefði allt eins getað verið úrslitaleikur á HM,“ sagði Merino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×