Erlent

Skortur á Ozempic hefur leitt til ó­lög­legrar starf­semi

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Skortur er á sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfja í flokki GLP-1 viðtakaörva í Evrópu.
Skortur er á sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfja í flokki GLP-1 viðtakaörva í Evrópu. Getty/Luliia Burmistrova

Stýrihópur Lyfjastofnunar Evrópu um lyfjaskort hefur gefið út tilmæli til að takast á við skort sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfja í flokki GLP-1 viðtakaörva. Meðal slíkra lyfja er lyfið Ozempic. Skorturinn leiði til ólöglegrar starfsemi.

Þetta kemur fram í tilkynningu Lyfjastofnunar en þar segir að skortur á slíkum lyfjum hafi verið langvarandi síðan um mitt síðasta ár. Þá hefur verið sérstaklega mikill skortur á Ozempic.

Misnotkun lyfja á stóran þátt í skorti

„Sendingar berast þó nokkuð reglubundið, í takmörkuðu magni reyndar, því lyfjafyrirtækið dreifir sendingum milli landa eftir því sem framleiðslugetan leyfir,“ segir í tilkynningunni.

Notkun lyfjanna til þyngdastjórnunar hjá fólki sem ekki þjáist af offitu eða er með heilsufarsleg vandamál tengd þyngd hefur leitt til aukinnar eftirspurnar og á stóran þátt í skorti á lyfjunum. Framleiðslugeta annar ekki eftirspurn sem hefur leitt til skorts um alla Evrópu. 

Hefur leitt til ólöglegrar starfsemi

„Þessi staða hefur einnig leitt til ólöglegrar starfsemi og hætta er á fölsuðum lyfjum í umferð.“

Stýrihópur um lyfjaskort (MSSG) á vegum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) gaf vegna þessa út tilmæli til aðildarstofnana í því skyni að takast á við langvarandi skort. Stefnt er að því að stýra þeim birgðum sem í boði eru með sem sanngjörnustum hætti þannig að þeir sem hafa mestu þörf fyrir lyfin fái þau.

„Ekki er skortur á lyfjunum hérlendis um þessar mundir, en þær birgðir sem berast reglubundið til landsins eru þó takmarkaðar. Af þeim sökum er því beint til lækna að ávísa lyfjunum eingöngu skv. samþykktum ábendingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×