Erlent

Hátt­settir þing­menn sagðir vilja að Biden stígi til hliðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var Hakeem Jeffiries, leiðtogi minnihlutans í fulltrúadeildinni, sem boðaði til fundarins um stöðu forsetans.
Það var Hakeem Jeffiries, leiðtogi minnihlutans í fulltrúadeildinni, sem boðaði til fundarins um stöðu forsetans. Getty

Háttsettir þingmenn Demókrataflokksins funduðu í gær um stöðu mála í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar vestanhafs og eru nokkrir sagðir hafa lýst því yfir að Joe Biden Bandaríkjaforseti ætti að stíga til hliðar.

Um var að ræða hóp fulltrúadeildarþingmanna sem allir eiga það sameiginlegt að sitja í valdamiklum þingnefndum og samkvæmt New York Times var umræðuefnið hvernig þingmennirnir gætu beitt áhrifum sínum til að þrýsta á Biden um að láta gott heita.

Niðurstaða fundarins er sögð hafa verið sú að eina leiðin fyrir Demókrata til að halda Hvíta húsinu og hafa sigur í baráttunni um meirihluta á þinginu væri að Biden stigi til hliðar. Þess ber þó að geta að nokkrir fundarmanna hafa lýst yfir stuðningi við Biden í kjölfar fundarins.

 Fundurinn er sagður til marks um þær áhyggjur sem enn eru uppi vegna hörmulegrar frammistöðu Biden í fyrri kappræðunum við Donald Trump á dögunum en þingmennirnir eru sagðir hafa lýst bæði eigin efasemdum og efasemdum kjósenda í kjördæmum sínum.

Leiðtogar innan Demókrataflokksins eru sagðir vilja gefa Biden ráðrúm til að taka sjálfur ákvörðun um að draga sig í hlé, frekar en að stíga fram og kalla eftir því opinberlega en kosningateymi Biden hefur á sama tíma bent á að margir háttsettir flokksmenn hafi þegar lýst yfir stuðningi við forsetann.

New York Times segir aðra Demókrata vilja gefa Biden tækifæri til þess að sýna og sanna að hann sé sannarlega starfinu vaxinn og að frammistaðan í kappræðunum hafi verið afmarkað atvik.

Forsetinn var á ferð og flugi um helgina og freistaði þess að sannfæra kjósendur um getu sína til að sigra Trump, meðal annars með því að ávarpa samkomu án þess að styðjast við texta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×