Fótbolti

Sex­tíu þúsund manns vilja ekki missa De Ligt til Man United

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fjöldi stuðningsmanna Bayern München vill ekki missa Matthijs de Ligt frá liðinu.
Fjöldi stuðningsmanna Bayern München vill ekki missa Matthijs de Ligt frá liðinu. Marco Canoniero/LightRocket via Getty Images

Tæplega sextíu þúsund stuðningsmenn þýska stórveldisins hafa sett nöfn sín á undirskriftalista til að reyna að koma í veg fyrir að félagið selji varnarmanninn Matthijs de Ligt til Manchester United.

De Ligt hefur verið sterklega orðaður við United í sumarglugganum og er Hollendingurinn sagður vilja komast frá þýska félaginu Bayern München.

Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að United hafi hafið viðræður við De Ligt um möguleg vistaskipti hans til félagsins. De Ligt hefur verið í herbúðum Bayern Münchern frá árinu 2022, en hefur ekki átt sjö dagana sæla og er nú orðaður frá félaginu þrátt fyrir að spila þrjátíu leiki í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

De Ligt vann sig þó betur og betur inn í byrjunarlið Bayern á síðasta tímabili, en yfirmenn hjá félaginu sögðu frá því að hann mætti yfirgefa herbúðir Bayern ef rétt tilboð myndi berast. 

Bayern hefur nú þegar fengið japanska miðvörðinn Hiroki Ito til liðs við sig í sumar og félagið er einnig langt komið með að næla í þýska miðvörðinn Jonathan Tah frá Þýskalandsmeisturum Bayer Leverkusen. Því gæti verið lítið pláss fyrir Matthijs de Ligt í liðinu.

Stuðningsmenn Bayern eru hins vegar margir hverjir ekki hrifnir af því að missa De Ligt úr herbúðum liðsins. Sky Sports í Þýskalandi greinir nú frá því að rétt tæplega sextíu þúsund manns hafi ritað nafn sitt á undirskriftalista sem kallar eftir því að Hollendingurinn fari ekki fet.

Á undiskriftalistanum segir að Matthijs de Ligt, sem enn er aðeins 24 ára gamall, sé „heimsklassa varnarmaður, líklega sá besti í liðinu“ og að hann „eigi langan og farsælan feril frammi fyrir sér“. Þá er de Ligt einnig hrósað fyrir „aðdáunarverðan þroska og hugarfar“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×