Erlent

Vill slá vopnin úr höndum popúlista með því að taka á á­hyggjum fólks

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blair ráðleggur Starmer að hlaupast ekki undan vandamálunum heldur takast á við þau.
Blair ráðleggur Starmer að hlaupast ekki undan vandamálunum heldur takast á við þau. epa

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hvetur Keir Starmer, núverandi forsætisráðherra, til að taka útlendingamálin föstum tökum í því skyni að slá vopnin úr höndum popúlista á hægri væng stjórnmálanna.

Blair er fyrrverandi formaður Verkamannaflokksins, sem vann stórsigur í nýafstöðnum þingkosningum í Bretlandi, en í viðtali við Guardian sagði hann að á sama tíma og menn leituðu svara og lausna yrðu þeir að vera meðvitaðir um aðferðafræði andstæðinga sinna.

„Popúlistinn skáldar ekki áhyggjuefni fólks, hann nýtir sér þau. Og ef þú vilt koma í veg fyrir að stuðningur við þá aukist þá verður þú að taka á áhyggjunum. Þess vegna er hárrétt hjá Keir að segja að við þurfum að hafa stjórn á aðflutningi fólks,“ sagði Blair en ítrekaði að innflytjendur hefðu haft verulega góð áhrif á Bretland.

Hann sagði að stjórnvöld þyrftu að taka lög og reglu alvarlega og vera meðvitaðir um það hvernig þeir nálguðust ýmis samfélagsleg málefni sem hægrimenn hefðu nýtt sér til að afla sér fylgis. Rétta leiðin væri að leita á miðjuna.

Varðandi Brexit og yfirlýsingar Starmer um að hann sæi ekki fyrir sér að Bretar gengju aftur í Evrópusambandið á næstu áratugum sagði Blair að það eina sem hann vissi fyrir víst væri að Bretar þyrftu að tilheyra „pólitískri fjölskyldu“ í eigin heimsálfu.

„Hvaða form það tekur veit ég ekki. En það mikilvægasta fyrir ríki á borð við Bretland að skilja, því við höfum mikið verið að horfa inn á við, er að innan tveggja áratuga verða þrír risar í heiminum; Bandaríkin, Kína og líklega Indland. Og það eina sem önnur ríki munu hafa til að snúa sér að eru svæðisbundin bandalög sem munu færa þér það í sameningu sem þú getur ekki aflað einn.“

Umfjöllun Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×