Enski boltinn

Man. Utd hækkaði til­boðið í Branthwaite

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jarrad Branthwaite er lykilmaður í vörn Everton og mun kosta sitt ætli félag að fá hann til sín.
Jarrad Branthwaite er lykilmaður í vörn Everton og mun kosta sitt ætli félag að fá hann til sín. Getty/Lewis Storey

Manchester United er enn á höttunum á eftir Jarrad Branthwaite, ungum varnarmanni Everton, og hefur nú hækkað tilboð sitt í leikmanninn.

Everton var búið að hafna 35 milljón punda tilboði United í Branthwaite. Breska ríkisútvarpið segir að nýja tilboðið sé í kringum 45 milljónir punda plús árangurstengdra bónusgreiðsla. BBC segir líka frá því að Everton vilji fá meira en það fyrir miðvörðinn.

Branthwaite er 22 ára gamall og var nálægt því að komast í enska EM-hópinn í ár. Þetta er líklegur fastamaður í enska landsliðinu í framtíðinni.

Branthwaite hefur gert góða hluti vinstra megin í miðri vörn Everton. Hann átti mikinn þátt í því að Everton hélt sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að fjölmörg stig væru tekin af liðinu vegna brota á rekstrarreglum.

United vill styrkja vörn liðsins og hefur verið í viðræðum við Bayern München um hollenska miðvörðurinn Matthijs de Ligt. Lítið er hins vegar að frétta af þeim viðræðum.

Franski miðvörðurinn Raphael Varane er farinn frá félaginu og það hefur ekkert frést af nýjum samningi milli United og Jonny Evans. Það er líka óvissa um framtíð sænska miðvarðarins Victor Lindelof en hann var þó mættur þegar æfingar liðsins hófust á ný í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×