Fótbolti

UEFA með lista yfir fljótustu og hægustu leik­menn EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe á fleygiferð í leik Frakka og Portúgala í átta liða úrslitunum.
Kylian Mbappe á fleygiferð í leik Frakka og Portúgala í átta liða úrslitunum. Getty/Eric Verhoeven

Enginn hefur hlaupið hraðar á Evrópumótinu í fótbolta en franski framherjinn Kylian Mbappé. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, er með lista á heimasíðu sinni yfir fljótustu leikmenn EM í ár.

Mbappé mældist mest á 36,5 kílómetra hraða í leikjum franska liðsins til þessa en næstur á eftir honum er Spánverjinn Ferrán Torres sem hefur mælst á 36 kílómetra hraða. Það má nálgast þessar upplýsingar hér.

Slóveninn hávaxni Benjamin Sesko er síðan þriðji á listanum en hann mældist mest á 35,9 kílómetra hraða. Sesko er 195 sentímetrar á hæð.

Um leið reiknar UEFA líka út hver sé hægasti leikmaður mótsins og það kemur í hlut Slóvenans Jasmin Kurtic. Hann mældist mest á aðeins 20,5 kílómetra hraða. Kurtic er neðstur þótt að markmenn séu teknir með.

Næsthægastur er tékkneski markvörðurinn Matej Kovár og þar á eftir er tyrkneski markvörðurinn Mert Gunok. Næsthægasti útileikmaður mótsins er aftur á móti úkraínski miðjumaðurinn Serhiy Sydorchuk sem mældist mest á 24,2 kílómetra hraða.

Kyle Walker er sá fljótasti í enska liðinu en nær þó aðeins nítjánda sæti á listanum. Hann hefur mælst mest á 34,8 kílómetra hraða á mótinu. Næstur er síðan Ezri Konsa í 47. sætinu og Englendingar virðast ekki hafa verið á miklum hraða til þessa á Evrópumótinu.

  • Fljótustu leikmenn Evrópumótsins 2024:
  • 1) Kylian Mbappé, Frakklandi 36,5 km/klst
  • 2) Ferrán Torres, Spáni 36
  • 3) Benjamin Sesko, Slóveníu 35,9
  • 4) Leroy Sane, Þýskalandi 35,8
  • 4) Valentin Mihaila, Rúmeníu 35,8
  • 6) Theo Hernández, Frakklandi 35,7
  • 7) Dan Ndoye, Sviss 35,6
  • 7) Micky van de Ven, Hollandi 35,6
  • 9) Rasmus Höjlund, Danmörku 35,5
  • 10) Rafael Leao, Portúgal 35,4



Fleiri fréttir

Sjá meira


×