Innherji

Fjár­festar keypt yfir helming nýrra í­búða á síðustu fimm­tán árum

Hörður Ægisson skrifar
Raunhækkun á verðmæti húsnæðis frá aldamótum til ársins 2023 er ríflega 230 prósent.
Raunhækkun á verðmæti húsnæðis frá aldamótum til ársins 2023 er ríflega 230 prósent.

Þegar litið er til nýrra íbúða sem hafa bæst við húsnæðismarkaðinn á undanförnum fimmtán árum þá hefur tæplega helmingur þeirra farið til einstaklinga sem eiga aðeins eina íbúð á meðan fyrirtæki og fjárfestar hafa keypt um 54 prósent íbúða sem hafa verið byggðar á tímabilinu, að sögn framkvæmdastjóra Aflvaka Þróunarfélags. Vegna íbúðaskuldar sem hefur safnast upp og aðstæðna á lánamörkuðum telur hann að það séu að verða til kynslóðir sem að óbreyttu missa af tækifærum til að byggja upp eigið fé.

Í árslok 2022 voru yfir 70 prósent af heildareignum fólks á aldrinum 66 ára og eldri eigið fé þess í íbúðarhúsnæði, miðað við fasteignamat, að teknu tilliti til fasteignaskulda, samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum Íslendinga.

Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka, bendir á það í aðsendri grein á Innherja fyrr í dag að ástæðan sé að verð fasteigna í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 8,9 prósent frá aldamótum og í sérbýli um 9,3 prósent að meðaltali á ári. Á sama tíma hefur verðbólga hins vegar hækkað árlega um 4,9 prósent og er raunhækkun á verðmæti húsnæðis frá aldamótum til ársins 2023 því ríflega 230 prósent.

Mynd 1: Sýnir fyrstu kaup og vænta eignamyndun.

Hann bendir á að vænt eignamyndun á næstu tuttugu árum verði að líkindum veruleg ef litið er til sögulegra talna, fasteignaverðhækkunar og verðbólgu. Þannig muni eigið fé fé ungs fólks sem fjárfestir í eigin húsnæði margfaldast á því tímabili ef sagan endurtekur sig. Eignahlutfall hækkar úr 20 prósent í 75 prósent og skuldahlutfall minnkar úr 80 prósent í 25 prósent.

Framkvæmdastjóri Aflvaka, félag sem meðal annars fjárfestarnir Andri Sveinsson og Birgir Már Ragnarsson standa að baki og áformar uppbyggingu fimm þúsund íbúða lífgæðakjarna fyrir 60 ára og eldri í Kópavogi, segir að við núverandi erfiðar aðstæður á lánamörkuðum fari að halla á þá sem minna eiga og möguleikar þeirra sem eiga meira aukast. Erfiðara verður fyrir almenning að kaupa íbúðir og þær verða að fjárfestingatækifærum fyrir þá eignameiri og fjárfestingafélög. 

„Þannig hefur þróunin verið síðustu 15 ár,“ að sögn Sigurðar, sem bætir við:

„Einstaklingar sem eiga eina íbúð hafa aðeins eignast 46 prósent þeirra íbúða sem byggðar hafa verið á meðan einstaklingar og fyrirtæki sem eiga fleiri en eina íbúð hafa eignast 54 prósent þeirra. Það þýðir að innan við helmingur þeirra sem keypt hafa íbúðir á tímabilinu voru að fá sér þak yfir höfuðið en yfir helmingur þeirra voru að fjárfesta.“

Að óbreyttu er vænt eignamyndun á næstu 20 árum veruleg út frá sögulegum tölum, fasteignahækkun og verðbólgu.

Fram kom í nýlegu áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eftir tveggja vikna heimsókn sína til Íslands í maímánuði, að á meðal aðhaldsaðgerða sem stjórnvöld gætu horft til við að ná markmiðum sínum í opinberum fjármálum á næstum árum væri að auka skattlagningu á söluhagnað af fasteignum fólks sem á fleiri en eina íbúð. Það sama ætti við um fasteignir sem væru keyptar í fjárfestingarskyni.

Sigurður segir í greininni – undir yfirskriftinni: Íbúðaskortinn skapar efnahagslega misskiptingu – að þegar litið er til þess að á undanförnum fimmtán árum hafi ekki verið byggt í samræmi við undirliggjandi húsnæðisþörf og íbúðaskuld hefur safnast upp megi ætla að til séu að verða kynslóðir sem eru að missa af tækifærum til að byggja upp eigið fé nema að breyting verði á.

„Við þessar aðstæður er ástæða til að spyrja sig hvort á vettvangi stjórnmálanna geti ekki orðið meiri samstaða um að auðvelda fólki fyrstu íbúðarkaup til að stuðla að því að eignamyndun á fasteignamarkaði dreifist á allan almenning í stað fárra eignameiri eða fasteignafélaga. Til þess að það geti orðið þarf að tryggja framboð íbúða og lóða sem allra fyrst.“

Þá gagnrýnir hann þau sjónarmið sem heyrst hafa á vettvangi stjórnmálanna um að æskilegt sé að fjölga hlutfalli leiguíbúða. Í ljósi sögunnar sé það ekki góð ráðstöfun fjármuna við þær efnahagsaðstæður sem eru ríkjandi á Íslandi. Hættan sé sú, að sögn Sigurðar, að þeir sem ekki eignast húsnæði missi af þeirri arðsemi sem fylgir því að búa í eigin húsnæði og þegar fram í sækir verði eignastaða þeirra og afkomenda þeirra veikari sem því nemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×