Fótbolti

Öryggis­vörður tæklaði Morata eftir leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Álvaro Morata heldur um hnéð eftir tæklingu öryggisvarðarins.
Álvaro Morata heldur um hnéð eftir tæklingu öryggisvarðarins. getty/Alex Grimm

Þrátt fyrir að Spánverjar séu komnir í úrslit EM hefur Álvaro Morata, fyrirliði þeirra, ekki átt sjö dagana sæla í Þýskalandi.

Spánn tryggði sér sæti í úrslitum EM með 2-1 sigri á Frakklandi á Allianz Arena í München í kvöld.

Þegar Spánverjar fögnuðu sigrinum eftir leikinn reyndi áhorfandi að komast í átt að leikmönnunum. Öryggisverðir stukku til og reyndu að stöðva manninn.

Einn þeirra rann reyndar á grasinu og á Morata. Spænski fyrirliðinn hélt um hnéið eftir þessa óvæntu tæklingu. Vonandi fyrir Morata og Spánverja eru meiðslin ekki alvarleg því framundan er úrslitaleikur á EM á sunnudaginn.

Öryggisvörðurinn tæklar Morata.getty/Alex Grimm

Morata hefur verið ósáttur við gagnrýnina sem hann hefur fengið á mótinu og gefið í skyn að hann gæti hætt í landsliðinu eftir EM. Þá sagði hann að honum hafi liðið betur þegar hann lék ekki á Spáni en Morata er leikmaður Atlético Madrid.

Morata fékk á baukinn fyrir þessi ummæli í grein í El Confidencial. Hann var meðal annars sagður hálfgerður vælukjói og afleitur sendiherra Spánar.

Eiginkona Moratas, Alice Campello, tók til varna fyrir sinn mann og sagði gagnrýnina á hann fáránlega.

Morata skoraði fyrsta mark Spánverja á EM, eftir 29 mínútur í 3-0 sigrinum á Króötum en hefur ekki skorað síðan. Hann er þó langmarkahæstur í spænska hópnum en hann hefur gert 36 mörk í 79 landsleikjum.


Tengdar fréttir

Rabiot sagði að Yamal þyrfti að gera meira en fékk það í andlitið

Lamine Yamal skoraði stórglæsilegt mark þegar Spánn tryggði sér sæti í úrslitum EM með sigri á Frakklandi, 2-1, á Allianz Arena í kvöld. Maðurinn sem reyndi að dekka Yamal í markinu hans skaut á strákinn fyrir leik en fékk það heldur betur í bakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×