Fótbolti

Messi skoraði þegar Argentínu­menn fóru í úr­slita­leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki sinu í undanúrslitaleiknum á móti Kanada í nótt.
Lionel Messi fagnar marki sinu í undanúrslitaleiknum á móti Kanada í nótt. Getty/Robin Alam

Heimsmeistarar Argentínu eru komnir í þriðja úrslitaleikinn í röð á stórmóti eftir 2-0 sigur á Kanada í undanúrslitaleik Suðurameríkukeppninnar í nótt.

Argentína mætir annað hvort Úrúgvæ eða Kólumbíu í úrslitaleiknum sem fer fram á Flórída á sunnudaginn.

Argentína vann HM í Katar 2022 og síðustu Copa América árið 2021 en það voru fyrstu titlarnir í langan tíma. Þetta voru líka fyrstu tveir titlarnir hjá Lionel Messi í þessum keppnum. Nú gæti sigurgangan haldið áfram.

Messi var að glíma við meiðsli aftan í læri í aðdraganda leiksins en allt leit vel út hjá honum í leiknum.

Manchester City maðurinn Julián Álvarez skoraði fyrra markið á 22. mínútu eftir stoðsendingu frá Rodrigo De Paul.

Messi skoraði seinna markið á 51. mínútu eftir að hafa stýrt skoti Chelsea mannsins Enzo Fernández í markið.

Þetta var fjórtánda mark Messi í sögu Copa América og 28. markið í síðustu 25 landsleikjum hjá hinum 37 ára gamla Messi.

Messi komst líka upp í annað sætið yfir markahæstu landsliðsleikmenn allra tíma og upp fyrir Íranan Ali Daei. Ronaldo er efstur með 130 landsliðsmörk en Messi er nú kominn með 109.

Argentína getur unnið Suðurameríkukeppnina í sextánda sinn en Messi og félagar hafa spilað sex af síðustu átta úrslitaleikjum keppninnar.

Með því að vinna þrjú stórmót í röð myndi Argentínumenn jafna afrek Spánverja frá 2öö8 til 2012 sem unnu þá þrjú mót í röð eða EM 2008, HM 2010 og EM 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×