Skoðun

Þar sem þing­menn þagna

Bubbi Morthens skrifar

Bændur eiga allt gott skilið, meira að segja ýmiskonar undanþágur ef það getur hjálpað þeim í baráttu sinni fyrir lífsbjörginni. En það hjálpar þeim lítið að afhenda Kaupfélagi Skagfirðinga alræðisvald yfir afurðum sínum.

Kaupfélag Skagfirðinga opnaði gin og buddu og eignaðist kjötvinnslu Kjarnafæðis Norðlenska um helgina. Kaupin fóru í gegn án aðkomu Samkeppniseftirlitsins. Nýju búvörulögin þutu í gegnum þingið og urðu að lögum á hraða sem Formúluaðdáendur hefðu hrópað húrra yfir.

Allt í kringum þessi lög og hverjir komu að þeim vekur réttmætar spurningar um spillingu. Undanfarin ár höfum við séð gjörninga þar sem kjörnir fulltrúar og ráðherrar á Alþingi Íslendinga hafa beitt sér skringilega svo ekki sé tekið dýpra í árinni, til dæmis í laxeldismálum þar sem lög voru gerð afturvirk af ráðherrum af því þeir gátu það og svo gera þeir núna fyrirtækjum kleift að makka sig saman án aðkomu Samkeppniseftirlitsins. Og bændur hafa ekkert með það að gera og sitja útá kölnu túni alþingis með von um betri tíð.

Þórarinn Ingi Pétursson formaður atvinnuveganefndar á 0,8 prósenta hlut í Búsæld ehf sem á rúmlega 43 prósent hlutafjár í Kjarnafæði. Hvergi í nokkru landi í kringum okkur eða landi sem við miðum okkur við væri það látið gerast að maður í hans stöðu fengi að koma nálægt þessum gjörningi. Ekki vegna þess að hann væri talinn óheiðarlegur eða spilltur heldur til að tryggja að hugmyndir um slíkt ættu ekki möguleika á að koma uppá yfirborð umræðunnar.

Nýsamþykkt lög sem fóru í gegnum atvinnuveganefnd með hann sem formann opna hinsvegar flóðgátt sem verður ekki lokað. Dómgreindarleysi formannsins er algert og vanmat á aðstæðum. Þó allt sé skráð í hagsmunaskrár alþingis um eignarhlut hans er það deginum ljósara að svona gerir maður ekki ... nema jú á Íslandi af því svona vinna kjörnir alþingismenn margir hverjir. Það eina sem við getum gert, almenningur í landinu, ef okkur líkar ekki við svona vinnubrögð, er að muna það í næstu kosningum. Börn okkar eiga betra skilið. Við eigum öll betra skilið en svona vinnubrögð og gjafagjörninga.

Höfundur er tónlistarmaður.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×