Veðurfræðingur Vegagerðarinnar varar sérstaklega við snörpum vindhviðum á Tröllaskaga og norðarlega á Ströndum, og einnig í Öræfum seint í kvöld.
Byljótt norðvestan til á landinu á morgun með hviðum 30-35 m/s í vindstrengjum við fjöll frá Snæfellsnesi og austur í Eyjafjörð.
Í textaspá Veðurstofunnar er spáð rigningu og súld með köflum um landið vestanvert og hiti 9 til 15 stig, en víða bjartviðri og hiti 15 til 22 stig eystra.
Á morgun má búast við suðlægari vindum víða 5-13 og væta með köflum vestan til, en annars bjartviðri. Annað kvöld hvessir og fer að rigna vestanlands. Áfram svipaður hiti.
Eins og fram hefur komið spá veðurfræðingar langþráðri blíðu austanlands um helgina. Hiti gæti náð allt að 25 gráðum á Skriðuklaustri.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Sunnan 8-15 m/s á vestanverðu landinu, rigning og hiti 10 til 15 stig, en dregur heldur úr vætu um kvöldið. Hægari austan til, víða bjartviðri og hiti 15 til 23 stig.
Á sunnudag:
Suðlæg átt, 5-10 m/s og rigning eða súld á vestanverðu landinu, en hægviðri og víða léttskýjað eystra, en sums staðar þoka með ströndinni. Hlýtt í veðri, einkum austan til.
Á mánudag og þriðjudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, stöku síðdegisskúrir sunnan til og líkur á þoku eða súld við sjávarsíðuna. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast inn til landsins.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt með vætu víða um land og hægt kólnandi veðri.