ÍR voru með tök á leiknum frá fyrsta flauti en markið kom ekki fyrr en í upphafi seinni hálfleiks þegar Dennis Nieblas í liði Grindavíkur setti boltann óvart í eigið net eftir hornspyrnu.
Renato Punyed Dubon tvöfaldaði forystu ÍR-inga á 54. mínútu, aftur kom markið eftir hornspyrnu.
Þriðja markið skoraði svo markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar, Bragi Karl Bjarkason, eftir góðan undirbúning Alexander Kostic.
Bragi var jafn Mána Austmann að mörkum fyrir leik en trónir nú einn á toppnum með átta mörk eftir tólf umferðir.
Eins og áður segir er ÍR nú í fjórða sæti deildarinnar, með 19 stig og tveimur stigum á undan Grindavík sem situr í fimmta sæti.