Sport

Djokovic getur bæði jafnað met og hefnt tapsins í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Alcaraz og Novak Djokovic eftir úrslitaleikinn á Wimbledon mótinu í fyrra þegar Alcaraz fagnaði sigri.
Carlos Alcaraz og Novak Djokovic eftir úrslitaleikinn á Wimbledon mótinu í fyrra þegar Alcaraz fagnaði sigri. Getty/Julian Finney

Serbinn Novak Djokovic og Spánverjinn Carlos Alcaraz spila til úrslita á Wimbledon mótinu í tennis í dag.

Þetta er tíundi úrslitaleikur Serbans á Wimbledon mótinu og hann jafnar met Roger Federer með sigri. Roger Federer vann Wimbledon mótið átta sinnum frá 2003 til 2017. Leikurinn hefst klukkan 13.00 á íslenskum tíma.

Djokovic vann fyrsta titil sinn á Wimbledon mótinu árið 2011 en hann vann þann sjöunda og síðasta árið 2022.

Djokovic hefði getað jafnað met Federer í fyrra en tapaði þá í úrslitaleiknum á móti einmitt Alcaraz.

Það er því stund hefndarinnar í dag en það væri líka mjög öflugt hjá hinum 21 árs gamla Spánverja að vera 2-0 í úrslitaleikjum á móti Djokovic á risamótum.

Það er mikill áhugi fyrir leiknum sem sést á því að ódýrasti miði á leikinn fer nú á næstum því ellefu þúsund dollara eða næstum því eina og hálfa milljón íslenskra króna.

Alcaraz tapaði fyrsta settinu 6-1 í úrslitaleiknum í fyrra en vann næstu tvö 7-6 (8-6) og 6-1. Djokovic jafnaði metin með 6-1 sigri í fjórða setti en Spánverjinn tryggði sér titilinn með 6-4 sigri í lokasettinu.

Djokovic hefur unnið 24 risamót á ferlinum sem er met. Alcaraz hefur unnið þrjú risamót þar á meðal Opna franska meistaramótið fyrr á þessu ári.

Þetta verður líka 37. úrslitaleikur Djokovic á risamóti en enginn í tennissögunni hefur náð því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×