Fótbolti

Kólumbíski þjálfarinn ó­sáttur við Shakiru tón­leika í hálf­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nestor Lorenzo, þjálfari Kólumbíu og stærsta tónlistarstjarn þjóðarinnar, Shakira.
Nestor Lorenzo, þjálfari Kólumbíu og stærsta tónlistarstjarn þjóðarinnar, Shakira. Getty/Gilbert Flores&EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Nestor Lorenzo, þjálfari Kólumbíu, bættist í hóp þeirra þjálfara sem hafa gagnrýnt skipulag og umgjörð Suðurameríkukeppninnar sem fer fram í Bandaríkjunum og klárast með úrslitaleik seint í kvöld.

Lærisveinar Lorenzo mæta þá Argentínu í úrslitaleiknum á Hard Rock Stadium í Miami.

Keppnin fer fram í Bandaríkjunum og eins og við þekkjum vel úr Super Bowl og NFL deildinni þá eru Bandaríkjamenn mjög hrifnir að vera með tónleika í hálfleik á úrslitaleikjum. Svo er einnig nú.

Lorenzo er þó allt annað en sáttur með það að hálfleikurinn lengist úr hefðbundnum fimmtán mínútum upp í 25 mínútur vegna tónleikanna. Hann er þó ekki að kvarta yfir skemmtikraftinum sem er kólumbíska söngkonan Shakira.

„Ég vona að þið njótið tónleikanna því Shakira er frábær,“ sagði Nestor Lorenzo á blaðamannafundi fyrir úrslitaleikinn.

„Ég skil þetta samt ekki. Ég vildi óska þess að þetta væri bara eins og í öllum hinum leikjunum á mótinu. Þegar við komum út eftir sextán mínútur þá fáum við refsingu en núna eru tónleikar í gangi og þá er allt í lagi að við komum út eftir tuttugu mínútur,“ sagði Lorenzo.

„Leikmenn kólna niður en það verður þannig hjá báðum liðum. Ég var bara að frétta það í dag að þetta yrði svona,“ sagði Lorenzo.

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku hefur verið duglegt að refsa þjálfurum fyrir of langar hálfleiksræður.

Lionel Scaloni (Argentína), Ricardo Gareca (Síle), Marcelo Bielsa (Úrúgvæ) og Fernando Batista (Venesúela) fengu allir eins leiks bann fyrir að skila sínum leikmönnum of seint út á völl eftir hálfleik. Auk þess fengu öll sérsamböndin fimmtán þúsund dollara sekt sem eru um tvær milljónir íslenskra króna.

Ein önnur breyting er í úrslitaleiknum. Hingað til í keppninni hefur verið farið beint í vítakeppni ef leikirnir í útsláttarkeppninni enda með jafntefli en í úrslitaleiknum verður framlenging eins og við þekkjum úr Evrópukeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×