Erlent

Á­rásin komi til með að auka stuðning við Trump

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur segir líklegt að árásin á Donald Trump muni hjálpa kosningabaráttu hans.
Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur segir líklegt að árásin á Donald Trump muni hjálpa kosningabaráttu hans. AP/Vísir

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum, telur líklegt að morðtilræðið gegn Donald Trump í gærkvöldi komi til með að styrkja kosningabaráttu hans, að minnsta kosti til skemmri tíma.

Atburðurinn komi til með að vekja ýmsar samsæriskenningar, en árásin hefur jafnframt vakið umræðu um öryggismál og spurningar um gæslu umhverfis forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum.

„Manni bregður náttúrlega alltaf að sjá svona. Það er náttúrlega gríðarlegt ofbeldi í Bandaríkjunum með skotvopnum þannig að það er ástæða fyrir því að frambjóðendur eru með lífverði og öryggisgæslu í kringum sig,“ segir Silja Bára.

Árásarmaðurinn sem skotinn var til bana á vettvangi er sagður hafa hleypt af byssunni af þaki byggingar skammt fyrir utan samkomusvæðið þar sem fjölmennur kosningafundur Trumps for fram í Pennsylvaníu í gær. 

„Mér skilst að þessi maður hafi verið utan öryggissvæðisins, það er að segja að hann hafi verið nógu langt í burtu til þess að hann hafi ekki verið búinn að fara í gegnum öryggisgæslu. Þannig þetta var ekki brestur í öryggiseftirlitinu á svæðinu sem að olli því að þetta gerðist. En þetta vekur alls konar spurningar,” segir Silja Bára.

Hún telur ljóst að árásin komi til með að styrkja kosningabaráttu Trumps sem sækist eftir embætti forseta á ný í kosningunum í nóvember.

„Ég held að þetta auki stuðning við Trump, að minnsta kosti til skemmri tíma. Að fólk muni horfa á þetta að það staðfesti orðræðu hans um að ríkið ógni honum, það sem hann kallar djúpríkið og allt þetta. Það byrjaði strax í nótt, Repúblikanar voru að kenna Biden og hans orðræðu um þetta atvik, þannig þeir reyna að snúa þessu þannig að þetta sé í raun Demókrötum að kenna,“ segir Silja Bára.

Þetta komi til með að ýta undir alls konar samsæriskenningar. „Algjörlega. Og mjög mikilvægt í raun og veru að reyna að sporna við því og reyna að tryggja að þetta verði ekki til þess að auka enn meira á tortryggni almennings gagnvart stjórnvöldum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×