Fótbolti

Argentína vann frestaðan úr­slita­leik Copa América

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Argentína hefur oftast allra þjóða unnið Copa América.
Argentína hefur oftast allra þjóða unnið Copa América. Pablo Morano/BSR Agency/Getty Images

Rúmlega klukkutíma seinkun varð á úrslitaleik Copa América, sem Argentína vann 1-0 eftir framlengingu gegn Kólumbíu.

Öryggisráðstafanir voru ekki nægilegar á Hard Rock leikvanginum í Miami þar sem leikurinn fór fram. Tveimur tímum fyrir leik voru aðdáendur byrjaðir að brjótast inn á völlinn.

Þetta skapaði óreiðu og öryggishliðum var lokað svo öryggisverðir kæmust annað til að bola miðalausum burt. Aðdáendur með miða þurftu því að bíða heillengi í steikjandi hita til að komast inn á völlinn.

Leikurinn frestaðist fyrst um hálftíma, svo aðrar 45 mínútur og hófs loks klukkutíma og 22 mínútum síðar en hann átti að gera. Þar að auki var hálfleikshléið tíu mínútum lengra en vanalega vegna tónlistaratriðis söngkonunnar Shakira.

Það var fátt um dauðafæri en Argentína skoraði ólöglegt mark og Kólumbía átti skot í stöng í fyrri hálfleik.

Lionel Messi meiddist og gekk tárvotur af velli um miðjan seinni hálfleik. Leikurinn fór í framlengingu og Messi gat tekið gleði sína á ný þegar Lautaro Martínez setti sigurmarkið fyrir Argentínu á 112. mínútu eftir stungusendingu Giovanni Lo Celso.

Þetta var fimmta mark Martínez á mótinu, tryggði honum gullskóinn og Argentínu sextánda Copa América titilinn.

Messi fór meiddur af velli á 66. mínútu.Pablo Morano/BSR Agency/Getty Images
Martínez var markahæstur á mótinu.Pablo Morano/BSR Agency/Getty Images

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×