Erlent

Pattstaða í Frakk­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jean-Luc Melenchon er leiðtogi Óbeygðs Frakklands en hann er afar umdeildur og fáir sem vilja vinna með honum.
Jean-Luc Melenchon er leiðtogi Óbeygðs Frakklands en hann er afar umdeildur og fáir sem vilja vinna með honum. epa/Yoan Valat

Útlit er fyrir að bandalag vinstri flokka sem hlaut flest sæti í nýafstöðnum þingkosningum í Frakklandi sé nú þegar að klofna.

Óbeygt Frakkland (LFI) hefur sakað Sósíalistaflokkinn (PS) um að hafna öllum tillögum um mögulegan forsætisráðherra og ganga þannig erinda Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Forsvarsmenn LFI hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja meðal annars að þeir muni ekki halda stjórnarmyndunarviðræðum áfram fyrr en búið er að kjósa forseta neðri deildar þingsins.

Þeir ásaka Sósíalista um að eyðileggja viljandi fyrir viðræðunum og spyrja hvort það sé vilji þeirra að sundra bandalaginu. Þeir segja Sósíalista hafa hafnað öllum forsætisráðherraefnum bandalagsins, á þeim forsendum að aðeins þeirra eigin kandídat sé þóknanlegur forsetanum.

Macron hefur lýst því yfir að hann muni ekki vinna með ríkisstjórn undir forystu LFI. Þá hafa bæði leiðtogar LFI og Þjóðfylkingarinnar lýst því yfir að þeir muni lýsa vantrausti á ríkisstjórn þar sem hinn á sæti.

Verkalýðsforystan í Frakklandi hefur sakað forsetann um að hafa „stolið lýðræðinu“ en kosningarnar sem Macron boðaði til í þeim tilgangi að skýra hina pólitísku stöðu í landinu virðast aðeins hafa flækt málin.

Boðað hefur verið til mótmæla og verkfalla á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×