Fótbolti

Fasískir til­burðir í fagnaðar­látum spænska lands­liðsins í Madríd

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alvaro Morata fagnaði með látum í Madríd í gær.
Alvaro Morata fagnaði með látum í Madríd í gær. Gonzalo Arroyo Moreno/Getty Images

Rodri og Alvara Morata leiddu níðsöngva um sjálfstjórnarríkið sunnan Spánar, Gíbraltar, þegar spænska landsliðið fagnaði Evrópumeistaratitlinum í höfuðborginni Madríd í gær. Forsætisráðherra Gíbraltar segir svívirðilegt að blanda fótboltafögnuði saman við fasistapólitík.

Gíbraltar er sjálfsstjórnarríki innan breska konungsríkisins, rétt sunnan Spánar og var áður innan landamæra spænska ríkisins en hefur verið hluti af Bretlandi síðan 1703.

Spánn hefur lengi viljað endurheimta Gíbraltar og gert fjölda tilrauna til.

Íbúar Gíbraltar hafa tvisvar gengið til atkvæðagreiðslu og hafnað því að verða hluti af Spáni.

Viðræður voru milli Spánar og Bretlands um sameiginlega stjórn yfir Gíbraltar en íbúar greiddu einnig atkvæði gegn því og Bretland ákvað að stöðva viðræður í kjölfarið.

Ríkisstjórn Gíbraltar hefur fundað með ríkisstjórn Spánar um önnur mál en lýst því yfir að allar hugmyndir um að verða hluti af spænska konungsríkinu séu algjörlega úr myndinni.

Eðlilega var það því umdeild ákvörðun að syngja lag sem segir „Gíbraltar er Spánn“ og var samið þegar Spánn var undir stjórn einræðisherrans Francisco Franco.

Myndskeið af söngnum má sjá hér fyrir neðan. Besti leikmaður EM, Rodri, hóf sönginn og fyrirliðinn Alvaro Morata fylgdi honum síðan eftir.

UEFA barst kvörtun vegna málsins frá gíbralska knattspyrnusambandinu þar sem sagði að leikmenn Spánar hefðu leitt „níðsöngva gerða til þess að ögra og vanvirða“.

Fabian Picardo, forsætisráðherra Gíbraltar, tjáði sig um málið á Twitter (X).

Þar segir hann svívirðilegt að blanda saman fótboltafögnuði og fasistalegum tilburðum sem þekktust undir stjórn einvaldsins Franco. 

Málinu verði fylgt eftir og ríkisstjórnin muni veita knattspyrnusambandinu fullan stuðning.

„Steinninn [Gíbraltarhöfði] er OKKAR!“ skrifaði hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×