Fótbolti

„Náði að pota honum með löngu leggjunum“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sveindís Jane á ferðinni.
Sveindís Jane á ferðinni. Vísir/Diego

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði eina markið í 1-0 sigri Íslands gegn Póllandi í undankeppni EM í dag. Ísland var búið að tryggja sér sæti á EM fyrir leikinn í dag.

„Auðvitað er gaman að vinna en mér fannst við geta gert betur. Sigur er sigur en við þurfum að skoða leikinn og bæta það sem þarf að bæta. Sex stig úr þessum leikjum er frábært,“ sagði Sveindís Jane í viðtali við RÚV beint eftir leik.

Eins og áður segir skoraði Sveindís Jane eina mark leiksins í dag þar hún vann boltann af varnarmanni Póllands, brunaði upp völlinn og skoraði örugglega með góðu skoti.

„Ég sá hún að hún var hæg á boltann og ég náði að pota honum með löngu leggjunum. Eina í stöðunni var bara að slútta. Það kemur ein þarna hratt á móti mér þannig að ég gat sett hana til hliðar, svo tók ég hann í nærhornið,“ sagði Sveindís um markið í dag.

Ísland lýkur keppni í riðlinum með 13 stig, tveimur stigum á eftir Þýskalandi sem vinnur riðilinn með 15 stig. Tvö efstu lið riðilsins fara beint á EM næsta sumar en Ísland tryggði sér annað sætið með sigri á Þýskalandi á mánudag. Sveindís er ánægð með frammistöðu Íslands í riðlinum.

„Mjög gott hjá okkur, að tapa einum leik. Þetta er fínasti riðill og Pólland flottar. Þær eru neðstar með níu stig en voru inni í öllum leikjum og hörkugóðar. Annað sætið, besta annað sætið í öllum riðlum. Við erum með Þýskalandi í riðli þannig að ég er mjög sátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×