Innlent

Grát­legt að veiðarnar séu kallaðar af meðan sjórinn er fullur af fiski

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Arthur Bogason er formaður Landssambands smábátaeigenda. 
Arthur Bogason er formaður Landssambands smábátaeigenda.  Vísir

Síðasti dagur strandveiða er í dag og öll strandveiðileyfi falla niður frá og með morgundeginum. Formaður Landssambands smábátaeigenda segir sjóinn fullan af fiski og grátlegt sé að tímabilinu sé lokið.

Leyfilegur heildarafli til strandveiða á þorski í ár var um 12.100 tonn og í morgun voru um fimm hundruð tonn eftir í pottinum. Fjölda strandveiðimanna þykir ósanngjarnt að hafa ekki fengið að veiða lengur, þar á meðal Arthuri Bogasyni, formanni Landssambands smábátaeigenda. 

„Okkur var úthlutað ákveðnu magni og í restina mætti matvælaráðherra tvö þúsund tonnum við pottinn hjá okkur. Vel gert, segi ég. En við fáum ekki að veiða þau,“ segir Arthur. 

Fiskistofa tilkynnti í dag að veiðarnar skyldu stöðvaðar. Arthur telur að stofnunin hafi ekki heimild til þess að stöðva starfsemina fyrr en veiðarnar eru komnar að því magni sem er leyfilegt.

Veitt í 750 bátum

„Sá sem setur trillubátum með handfæri skorður er almættið og náttúran. Við þurfum ekki hjálp frá fiskifræðingum eða stjórnmálamönnum til að þessu sé stýrt. Reynsla manna á þessu sumri er að sjórinn er fullur af fiski. Og það er grátlegt að það skuli vera kallað af þegar svoleiðis aðstæður eru,“ segir Arthur. 

Hann segir um það bil 750 báta hafa stundað strandveiði á núliðnu sumri. „Það segir sig sjálft, að slökkva á 750 smábátum með svona hætti. Það er ekki gott, það er bara vont.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×