Erlent

Grunar að Íranir hafi skipu­lagt morð á Trump fyrir at­burði vikunnar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Öryggisráð Bandaríkjanna grunar að yfirvöld í Íran hafi viljað ráða Trump af dögum vegna morðsins á Qasem Soleimani árið 2020 en ráðabruggið ekki verið komið nógu vel á veg.
Öryggisráð Bandaríkjanna grunar að yfirvöld í Íran hafi viljað ráða Trump af dögum vegna morðsins á Qasem Soleimani árið 2020 en ráðabruggið ekki verið komið nógu vel á veg. AP

Öryggisgæsla í kring um Donald Trump var fyrir nokkrum vikum aukin þegar bandarísk yfirvöld komust á snoðir um að yfirvöld í Íran hafi ætlað að ráða Trump af dögum. 

AP fjallar um málið og hefur eftir embættismönnum að samsærið sé ótengt morðtilræðinu gegn Trump á kosningafundinum í Pennsylvaníu á laugardaginn. 

Fram kemur að lífvarðasveit Bandaríkjaforseta og Donald Trump hafi verið gert kunnugt um samsærið og lífvarðasveitin í kjölfarið aukið viðbúnað í kringum Trump. Síðast hafi viðbúnaður verið aukinn þann 21. júní. 

Adrienne Watson talskona öryggisráðs Bandaríkjanna sagði við AP að yfirvöld hefðu lengi fylgst með ógnum frá írönskum yfirvöldum gegn Trump. Árið 2020 fyrirskipaði Trump morðið á Qassem Soleimani, sem fór fyrir Quds-hersveitum íranska byltingarvarðarins.

Trump og aðrir embættismenn hafa síðan sætt hótunum frá Tehran, höfuðborg Íran. Watson staðfesti að engin tengsl væru á milli tvítuga árásarmannsins á kosningafundi Trump á laugardaginn, og meints samsæris íranskra yfirvalda gegn honum. Raunar væru engar vísbendingar um að neinn annar stæði að baki áætlun unga mannsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×