„Þetta er slæmt fyirr okkur en hræðilegar fréttir fyrir [Úkraínu],“ hefur Guardian eftir evrópskum sendifulltrúa í Washington. „[Vance] er ekki bandamaður okkar.“
Michael McFaul, yfirmaður hjá Freeman Spogli Institute for International Studies og fyrrverandi sendiherra í Rússlandi, bendir á að varaforsetaefnið, öldungadeildarþingmaðurinn J.D. Vance, hafi verið einn harðasti andstæðingur aukinnar aðstoðar til handa Úkraínumönnum.
Joe Biden og Kamala Harris hafi staðið með lýðræðinu og á móti einræðishyggju en Trump og Vance hafi ekki sýnt því neinn áhuga að standa með öðrum lýðræðisríkjum og þvert á móti lofað leiðtoga á borð við Vladimir Pútín.
Vance hefur talað fyrir því að Úkraínumenn gangi til viðræðna við Rússa um endalok átaka og sagt að Bandaríkin ættu að greiða fyrir því að Ísraelar geti lokið aðgerðum sínum á Gasa. Þá hefur hann sagt að Evrópa þurfi að átta sig á því að Bandaríkin hyggist nú beina sjónum sínum þaðan og að Kína.