Erlent

Ekkert nema ást og að­dáun á lands­þingi Repúblikana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ron DeSantis og Nikki Haley hvöttu landsmenn til að hafna Biden og kjósa Trump.
Ron DeSantis og Nikki Haley hvöttu landsmenn til að hafna Biden og kjósa Trump. AP

Nikki Haley, fyrrverandi keppinautur Donald Trump í forvali Repúblikanaflokksins fyrir foretakosningarnar í Bandaríkjunum, fór fögrum orðum um manninn þegar hún steig á svið á landsþingi flokksins í gær.

Það vakti athygli að Haley átti ekki að flytja ræðu á landsþinginu en var, líkt og hún greindi sjálf frá í ræðu sinni, boðið að tala eftir banatilræðið gegn Trump. Haley sagði að Trump hefði boðið sér að flytja erindi í þágu samstöðu meðal flokksmanna og hún þegið það með þökkum.

„Þú þarft ekki alltaf að vera sammála Trump til að kjósa hann. Trúið mér,“ sagði Haley meðal annars, við mikinn fögnuð. Hún hvatti kjósendur sína til að flykkja sér að baki Trump og gagnrýndi Joe Biden og sagði hann meðal annars hafa brugðist þjóðinni.

Demókratar, sem hafa freistað þess að ná til stuðningsmanna Haley, sem margir eru afar ósáttir við Trump, brugðust við ræðu hennar með því að vitna í hana sjálfa.

„Sendiherrann Haley sagði það best: Sá sem virðir ekki herinn okkar, þekkir ekki rétt frá röngu og umvefur sig með ringulreið getur ekki orðið forseti,“ sagði í yfirlýsingu frá framboði Biden.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, sem einnig bauð sig fram í forvalinu, fór einnig fögrum orðum um Trump, jafnvel þótt síðarnefndi hefði ítrekað gert lítið úr honum þegar þeir voru keppninautar.

DeSantis sagði menn hafa líkt Trump við djöfulinn, sótt hann til saka og þá hefði hann næstum verið ráðinn af dögum. „Við megum ekki bregðast honum og við megum ekki bregðast Bandaríkjunum,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×